Stöðuleyfi vinnubúðanna á Reyðarfirði framlengt

Fjarðabyggð hefur samþykkt erindi Alcoa Fjarðaáls um að framlengja stöðuleyfi starfsmannabúða sem reistar voru við byggingu álversins til næsta sumars.

Búðirnar voru reistar árið 2004 og í þeim bjó mest um 1600 manns meðan framkvæmdum stóð. Þær tæmdust hins vegar eftir að álverið var gangsett síðla árs 2007 og hafa staðið auðar.

Alltaf hefur staðið til að þær yrðu fjarlægðar en á ýmsu gengið og framleng stöðuleyfisins verið árviss viðburður.

Þannig keypti Stracta Construction þær árið 2012 með skilyrði um að flytja þær á brott og ganga frá svæðinu. Dómsmál var höfðað út af deilum um það samkomulag. Árið 2013 var dæmt í öðru dómsmáli þar sem deilt var um réttindi yfir nokkrum einingum.

Árið 2011 var viðruð sú hugmynd að búðunum yrði breytt í fangelsi en hún var fljótt slegin út af borðinu.

Skriður komst loks á frágang svæðisins í fyrravor þegar Þ.S. verktakar og fasteignasalan Inni komu að borðinu. Í erindi Fjarðaáls til sveitarfélagsins segir að sú ákvörðun hafi verið tekin eftir „töluvert þóf og vangaveltur“ um hvernig koma mætti verkinu áfram. Það hafi þó tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert og en ætlað er að einingarnar verði farnar af svæðinu fyrir 1. júlí og frágangi lokið næsta haust.

Samkvæmt erindinu, sem dagsett er í byrjun nóvember, voru þá um 140 gámeiningar eftir. Samkvæmt upplýsingum frá Inni er hluti þeirra seldur en beðið eftir góðu veðri og færð milli landshluta til að koma þeim í burtu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.