Stofnaði hóp um verð á flugi: Ekki á verði sem almenningur ræður við

Austfirðingar og aðrir íbúar landsbyggðarinnar hafa undanfarnar vikur deilt upplifun sinni af kaupum á innanlandsflugi í sérstökum Facebook-hóp. Stofnandi hópsins segir dýrt flug skerða samkeppnishæfni svæðisins.


„Ég sá fólk reglulega deila sögum af kaupum á flugi og vildi koma á vettvangi þar sem hægt væri að safna þessum sögum saman.

Fólk hefur ekki þann lúxus að plana 2-3 mánuði fram í tímann. Þess vegna koma þessar sögur þegar fólk þarf skyndilega að fara. Það blótar meðan það bókar en svo er það gleymt,“ segir Ívar Ingimarsson, gistihússeigandi á Egilsstöðum.

„Það hefur verið reglulega umræða um þetta síðan ég flutti austur fyrir einum fjórum árum. Það hafa verið haldnir fundir með íbúum, með ráðherra og verið skipaðar nefndir en það hefur ekkert gerst nema að flugverðið hefur hækkað.“

Yfir 500 einstaklingar eru skráðir í hópinn „Dýrt innanlandsflug – þín upplifun.“ Margir þeirra hafa sagt frá viðskiptum sínum þegar þeir hafa reynt að fara með fjölskylduna í stutta ferð til Reykjavíkur.

Meðal þess sem gagnrýnt er í hópnum er að óljóst sé hvenær afsláttartilboð séu í gangi og hversu mörg sæti sé hægt að fá á ódýrari fargjöldum. „Flugfélagið telur sig bjóða góða þjónustu en upplifun fólksins er að kerfið sé mjög flókið og erfitt að átta sig á hvernig komast megi yfir ódýrustu fargjöldin.“

Rætt hefur verið um að skilgreina flug til Egilsstaða sem almenningssamgöngur sem síðan yrðu niðurgreiddar af ríkinu. Af hálfu Flugfélags Íslands hefur verið rætt um að þar á bæ sé litið á þjónustuna sem almenningssamgöngur.

Ívar telur ýmislegt vanta upp þá að sú skilgreining standist. „Þá ætti fólk að geta farið út á flugvöll og gengið að ákveðnu verði sem vísu. Þetta eru vart almenningssamgöngur þegar þær eru ekki á verði fyrir almenning.

Ég myndi samt vilja sjá að flugið yrði formlega skilgreint sem almenningssamgöngur því samkeppni virðist vart virka á flugleiðinni eða vera pláss fyrir hana.“

Ívar segir flugverðið hamla samkeppnishæfni Austurlands. „Við búum á mjög dreifbýlu landi og þurfum að sækja gríðarlega mikið af þjónustu og afþreyingu íbæinn.

Ef Fjarðaál segist eiga erfitt með að fá starfsfólk og halda því nema bjóða upp á ódýr fargjöld hver er þá staða annarra fyrirtækja á Austurlandi?“

Austurland á ekki bara í samkeppni við aðra staði á Íslandi heldur í heiminum. „Hve margar ráðstefnur eða hvataferðir verða aldrei haldnar á Austfjörðum því fjórðungurinn er ekki samkeppnisfær þegar flugið er reiknað inn í pakkann til viðbótar við allt annað. Menn geta flogið nánast hvert sem er í heiminum á sama verði og að fara til Egilsstaða.“

Upplifun fólks er að flugið sé of dýrt og það gildir einu hvaða laun menn hafa. Við viljum að fólk búi á landsbyggðinni og samfélög byggjast á samgöngum og aðgengi að þjónustu. Eins og málinu eru er Austurland hvorki samkeppnishæft um fólk né fyrirtæki.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.