Stórt snjóflóð féll alveg niður að vegi fyrir ofan Eskifjörð

Snjóflóð af stærðinni 4 féll úr Svartafjalli fyrir ofan Eskifjörð snemma í gærmorgunn og náði alveg niður að Oddsskarðsvegi. Snjóathugunarmaður man ekki eftir svo stóru flóði þar áður.

Samkvæmt stærðarflokkun snjóflóða þýðir flóð af stærðinni 4 að þar hafa fallið kringum tíu þúsund tonn af snjó en það magn vel nægjanlegt til að eyðileggja hús sem fyrir verða. Góðu heilli var ekkert í vegi þessa ákveðna flóðs en það breiddi þó úr sér alla leið að veginum upp í Oddsskarð.

Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi og snjóathugunarmaður, segist ekki muna svo stórt flóð á þessum stað áður.

„Ég hef nú reyndar ekki verið snjóathugunarmaður mjög lengi en ég man ekki eftir svo stóru flóði sem farið hefur jafn langt niður. Þetta er reyndar þekktur flóðastaður en þetta var með allra mesta móti. Orsökin hugsanlega sú að flóðið hófst við efstu brún fjallsins og því komist á mikla ferð niður.“

Tilkynnt hefur verið um töluverðan fjölda snjóflóða á Austfjörðum síðustu tíu dagana eða alls tólf í heildina. Þau öll fallið í Eskifirði og Seyðisfirði. Flóðin hugsanlega verið mun fleiri sem ekki hefur sést til en töluverð snjómugga hefur verið raunin víða í fjörðunum yfir páskana og því hugsanlegt að snjóað hafi yfir öll ummerki. 

Áfram varasamar snjóflóðaaðstæður

Spáð er töluverðu frosti víða austanlands allt fram á næstu helgi en það þýðir að hugsanlegir veikleikar í snjóþekju til fjalla viðhaldast með tilheyrandi hættu á snjóflóðum. Metur snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands hættuna töluverða næstu dagana en þar er fyrst og fremst verið að vísa til aðstæðna í fjalllendi en ekki endilega í eða við byggð. Útivistarfólk er hvatt til að fara mjög varlega og forðast brekkur þar sem mikill snjór hefur safnast saman.

Óvenju mikill snjór er í fjöllum Austurlands miðað við árstíma en snjóalög eru víða veik svo raunveruleg hætta er á flekaflóðum næstu daga. Mynd úr safni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar