Strengur fagnar 60 ára afmæli með styrkjum í heimabyggð

Í tilefni af 60 ára afmæli Veiðiklúbbsins Strengs hefur Strengur skrifað undir styrktarsamninga til þriggja ára við þrjú verðug verkefni í heimabyggð sinni, Vopnafirði. Framlög renna til Björgunarsveitarinnar Vopna, yngri deilda fótbolta hjá Ungmennafélaginu Einherja, og til Ísoldar Fannar Vilhjálmsdóttur, ungs listhlaupara á skautum, sem stefnir að því að keppa á næstu vetrarólympíuleikum sem haldnir verða 2022.

„Það gleður okkur að geta stutt þessi góðu málefni í heimabyggð. Við vinnum að verkefni sem tengist uppbyggingu áa og vernd laxastofna í Vopnafirði og erum því hluti af samfélaginu hér. Stuðningur okkar við þessi verkefni endurspeglar einlægan vilja okkar til að vera virkir þátttakendur í samfélagi íbúanna hér á svæðinu með því að axla okkar ábyrgð á vexti þess og velferð,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Strengs.

Hæsti styrkurinn er til Vopna, 10 þúsund dollarar eða 1,25 milljónir króna á ári miðað við núverandi gengi. Einherji fær 5000 dollara eða 625 þúsund krónur og Ísöld Fönn 3000 dollara eða 375 þúsund krónur.

„Vopnafjarðarhreppur fagnar því að stutt sé við hið mikilvæga starf, sem unnið er hjá björgunarsveitinni Vopna, og öllum þeim stuðningi sem stuðlar að vexti og velgengni Einherja og annars afreksfólks á sviði íþrótta á svæðinu,“ segir Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps í tilkynningu frá Streng.

Hrinda af stað verndarverkefni

Styrkveitinguna nú ber upp á sama tíma og Strengur stendur að einu umfangsmesta verkefni sem um getur til stuðnings villtum laxi. Verkefnið „Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi“, einstætt náttúruverndarverkefni sem fjármagnað er af Sir Jim Ratcliffe, hefur það að markmiði að vernda Atlantshafslaxinn á Norðausturlandi.

Atlantshafslaxinum hefur hnignað um alla Norður-Evrópu og má sem dæmi nefna að á mörgum svæðum snúa einungis 3-5% af laxa aftur í ár sínar til hrygningar, samanborið við 25% fyrir tuttugu árum.

„Stofni Atlantshafslaxins er ógnað, en hér á Norðausturlandi hefur verið gripið til varna. Verkefnið „Verndarsvæði laxa“ er í eðli sínu frumkvöðlastarf sem unnið er að með beinum stuðningi við viðgang laxins í ánum en einnig með framkvæmd nýrra rannsókna sem vonandi geta af sér niðurstöður sem styðja við vernd stofnsins á heimsvísu,“ segir Jón Magnús Sigurðarson, formaður Veiðifélags Hofsár.

Mikilvægt að áfram sé búið á jörðunum

Þá hefur Sir Jim einnig hleypt af stokkunum alþjóðlega mikilvægu rannsóknarverkefni til stuðnings starfinu sem unnið er til verndar villtum laxastofnum á Norðausturlandi. Markmið rannsóknanna er að finna leiðir til að stöðva þá hnignun sem ógnar tilveru stofns Atlantshafslaxins á Norðurhveli. Með aðkomu Imperial College London og Hafrannsóknastofnunar leitast rannsóknarteymið við að komast að því af hverju hnignun stofnsins stafar og hvað hægt sé að gera til að snúa þróuninni við.

Verkefnið Verndarsvæði laxa hófst með mörg hundruð milljóna króna kaupum á Veiðiklúbbnum Streng og nokkrum bújörðum við ár með það fyrir augum að stofna einstætt og sjálfbært verndarsvæði, þar sem allur afrakstur af starfinu rynni aftur til verndar vistkerfis, áa og laxa.

Í svo umfangsmiklu verndarstarfi sem þessu felst m.a. stækkun göngusvæða laxins með nýjum laxastigum, stuðningur við stofna með greftri frjóvgaðra hrogna úr fiskum af svæðinu, stórtæk ræktun trjáa og gróðurs, ásamt styrkingu innviða við árnar og byggingu veiðihúsa af háum gæðum. Allt eru þetta aðgerðir sem krefjast hæfs staðbundins vinnuafls og aðkomu sérfræðinga á sviði vísinda.

Ein grundvallarforsenda árangurs af verndarstarfinu er líka að hefðbundinn landbúnaður haldi áfram. Bændur hafa því verið studdir til áframhaldandi búsetu á jörðum, með innheimtu lágmarksleigu, með það fyrir augum að styðja við viðkvæmt samspil náttúrufars og hefðbundinnar landnýtingar.

Fyrir tilstuðlan þessa verkefnis verður Norðausturland fyrirmynd og miðstöð verndarstarfs laxa á heimsvísu, þar sem niðurstöðum rannsókna og hagnýtum aðgerðum verndarstarfsins verður miðlað til samfélags vísinda og verndunar um allan heim til að stuðla að viðgangi villta laxastofnsins á Íslandi og endurheimt stofna í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Skandinavíu.

Þorgrímur Kjartansson frá Einherja, Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir listhlaupari á skautum, Sölvi Kristinn Jónsson frá Vopna og Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs. Mynd: Dagný Steindórsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.