Styrktu fimm íþrótta- og tómstundaverkefni í Múlaþingi
Alls fimm verkefni fengu fjárstuðning til íþrótta- og tómstundastarfs í Múlaþingi á dögunum við seinni úthlutun Fjölskylduráðs sveitarfélagsins til slíkra verkefna.
Umsóknir um styrki voru alls sautján talsins að upphæð sex milljónir króna en þar sem aðeins var ein milljón til úthlutunar þurfti að velja á milli.
Þannig fóru 200 þúsund krónur til stofnunar fimleikadeilar á Djúpavogi, sama upphæð til Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs vegna kaupa á golfhermi og til lagfæringa á útikennslustofu á Seyðisfirði. Þá var landsliðsverkefni vegna Evrópumótsins í hópfimleikum styrkt um 100 þúsund krónur. Hæsti styrkurinn að þessu sinni fór til gerðar og viðhalds skíðagönguspora í Selskógi og á Fjarðarheiði á vegum Egilsstaðasporsins en þau samtök halda saman upplýsingum um hentug gönguskíðaspor á svæðinu.