Sundabúð í hendur Vopnfirðinga: Léttir að við fáum að verða gömul hér heima
Vopnafjarðarhreppur er tekinn við rekstri dvalarheimilisins Sundabúðar. Um er að ræða tveggja ára verkefni með stuðningi velferðarráðuneytisins. Á tímabili leit út fyrir að hjúkrunarheimilinu yrði lokað vegna niðurskurðarkröfu. Því var afstýrt og segja Vopnfirðingar að þeim sé létt yfir að málið sé í höfn.
„Við erum tilbúin í þetta verkefni sem við erum saman í, að hlúa að Sundabúð og finna enn betur út hvað hentar samfélaginu hér best,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps, við undirritunna.
„Það er mikill léttir yfir okkur þegar við vitum og sjáum fram á að við fáum að verða gömul hér heima.“
Sveitarfélagið sér alfarið um reksturinn
Hreppurinn tekur að sér reksturinn á hjúkrunarheimilinu Sundabúð og þjónustu heimahjúkrunar við íbúa sveitarfélagsins samkvæmt samkomulaginu sem Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) og velferðarráðuneytið eru einnig aðilar að.
Starfsmenn hjúkrunarheimilisins, sem áður voru starfsmenn HSA, verða nú starfsmenn hreppsins. Samningurinn er til tveggja ára með möguleika á endurnýjun. Ráðuneytið greiðir hreppnum 210 milljónir króna á samningstímanum.
„Sveitarfélagið tekur nú alfarið við rekstrinum á dvalarheimilinu, mannaráðningum, þróun þjónustunnar og fleiru,“ sagði Þórunn.
Við ætluðum aldrei og höfum aldrei gefist upp
Haustið 2010 bárust þær fréttir að til stæði að loka Sundabúð vegna niðurskurðar á fjárlögum og í fyrra var sjúkraliðum sagt upp því til stóð að leggja af hjúkrunardeildina.
„Við stóðum frammi fyrir því að það ætti að loka en við ætluðum aldrei að gefast upp og höfum aldrei gefist upp. Það var skelfilegt að hugsa til þess að við þyrftum að senda fólkið burt. Við búum á þannig stað að við skreppum ekkert yfir í Egilsstaði eða aðra staði.
Þetta er gríðarlega dýrmætt fyrir samfélagið. Það eru grundvallarmannréttindi að fá að eldast heima hjá sér.“
Skiptir máli að heimamenn fái að stýra þjónustunni
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra sagði að yfirfærsla Sundabúðar væri liður í að færa aukin yfirráð yfir verkefnum til sveitarfélaganna. „Það skiptir miklu máli að fá þjónustuna hingað heim þar sem þið getið ráðið henni og skipulag hvernig hún skuli veitt.
Á þessu kjörtímabili höfum við unnið að því að færa málaflokk aldraðra til sveitarfélaganna. Það kláraðist ekki enda var það ekki markmiðið heldur höfum við viljað finna út hvað hentaði best á hverjum stað.
Sú þróun sem á eftir að eiga sér stað er að menn klæðskerasauma hana að hverjum stað. Þótt við gefum út leiðbeinandi reglur um að allir eigi að búa sem lengst heima er ekki víst að það passi alls staðar.“
Rekstur Sundabúðar hefur verið undir hatti HSA undanfarin þrettán ár. Á hjúkrunarheimilinu eru ellefu hjúkrunarrými og er markmiðið með rekstri heimilisins að skapa fólki heimili sem er af heilsufarsástæðum ófært um að búa áfram á eigin heimili, þrátt fyrir félagslegan stuðning og heimahjúkrun.