Sveitarstjórn sagði nei við frekari efnistöku

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur meinað Vegagerðinni að taka frekara efni úr Svartagilslæk í Berufirði. Jafnframt skoði Skipulagsstofnun áhrif efnistökunnar.

Efni úr námunni hefur verið nýtt í nýjan veg yfir Berufjörð. Hann átti að vera tilbúinn í september en er það ekki enn því vegurinn yfir fjörðinn hefur sigið langt umfram það sem áætlað var.

Efni í veginn hefur verið sótt í Svartagilslæk. Heimild til efnistöku þar er þrotin og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur meinað Vegagerðinni að sækja meira.

Í byrjun mánaðarins sendi Vegagerðinni hreppnum bréf þar sem fram kom að búið væri að nema 235 þúsund rúmmetra úr námunni en í framkvæmdaleyfi var leyft að taka allt að 90 þúsund rúmmetra.

Í bréfinu er óskað eftir heimild til að taka allt að 49 þúsund rúmmetra í viðbót eða 284 þúsund rúmmetra alls, en jafnframt tekið fram að vonandi dugi að taka 20 þúsund í viðbót.

Þessari beiðni hafnaði hreppsnefnd Djúpavogs á fundi sínum í síðustu viku. Í bókun kemur fram að efnistakan sé þegar komin langt umfram heimildir. Í breytingum á aðalskipulagi frá 2014 er náman sögð innihalda 72-90 þúsund rúmmetra af efni.

Hreppsnefndin lét ekki staðar numið við að hafna erindinu heldur fór fram á að öll efnistaka vegna vegagerðarinnar, jafnt í Svartagilslæk sem annars staðar, yrði tafarlaust stöðvuð. Beint er til Vegagerðarinnar að bera þær breytingar sem orðið hafi á framkvæmdinni undir Skipulagsstofnun og óska eftir hvort þær séu matsskyldar samkvæmt lögum um umhverfisáhrif.

Í bréfi Vegagerðarinnar kom fram að efnisvinnslan hafi verið í samráði við landeiganda sem hafi verið honum til töluverðra hagsbóta. Í fréttum RÚV í dag kom fram að framkvæmdin væri komin um 200 milljónir fram úr áætlun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar