„Svo heyrir maður allt í einu neyðaröskrin af neðri hæðinni“

„Það tók okkur stundarkorn að gera okkur grein fyrir hvað hafði gerst enda vorum við ekki alveg vöknuð en svo heyrðum við bara neyðaröskrin og lætin frá neðri hæðinni strax í kjölfarið,“ segir Sæþór Sigursteinsson, íbúi í öðru af þeim tveimur fjölbýlishúsum í Neskaupstað sem urðu fyrir snjóflóði snemma í morgun.

Það er nokkuð samdóma álit manna sem Austurfrétt hefur rætt við að hefðu flóðin komið aðeins síðar en raunin varð hefði staðan hugsanlega verið önnur og mun verri. Bæjarbúar hafi velflestir verið að vakna og því engir eða fáir á ferli utandyra þar sem flóðin féllu.

„Það var nú ekki svo að ég áttaði mig á hvað væri á seyði og ekki heyrði ég neitt fyrr en flóðið skellur á húsinu með miklum dynk,“ segir Sæþór í samtali við Austurfrétt. „Maður var svona að rísa úr rekkju og enn með stírur í augum svo að mér var brugðið þegar höggið kom á húsið en svo komu þessi miklu neyðaröskur af neðri hæðinni. Ég glaðvakna, spóla mig í föt í einum grænum og út á stigagang þar sem ég geri mér loks grein fyrir hvað átt hefur sér stað. Þar fylltist nánast öll íbúðin af snjó.“

Staðfest hefur verið að engir hlutu alvarleg meiðsl við snjóflóðin í bænum snemma í morgun en þónokkrir þurftu að leita læknisaðstoðar vegna smávægilegra meiðsla. Sæþór var einn þeirra en hann skarst nokkuð á kálfa vegna glerbrota í snjónum fyrir utan húsið þegar rýming var gerð.

„Ég varð fyrir því að fá stærðar glerbrot beint í kálfann á mér þegar við vorum að rýma húsið og ég þurfti að drífa mig og láta sauma tvö spor í kálfann. Það var engin leið að sjá slíkt í snjónum þegar út var komið því það var brak út um allt.“

„Í sjálfu sér vorum við í þessu húsi heppin að því leytinu að flóðið féll fyrst á fjölbýlishús hér rétt fyrir ofan okkur og þar náði flóðið vel upp á aðra hæð þess húss. Við hér sluppum við það og mildi að enginn hér á neðri hæðinni hafi til dæmis verið kominn í eldhúsið og staðið fyrir innan gluggann þegar þetta ríður yfir. En við auðvitað töluvert heppnari en fólkið í blokkinni hér utar því snjóflóðið náði ekki aðeins upp á aðra hæð þar heldur sópaði niður bílum kringum það hús og þeir bílar komu í runnu með snjónum hér fram hjá okkar byggingu og stoppuðu hér rétt fyrir neðan á steyptum kanti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar