Sýna tækifærin sem eru á Austurlandi

Um fimmtíu fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök munu taka þátt í náms- og atvinnulífssýningunni Að heiman og heim sem haldin verður um á laugardag í íþróttahúsinu á Egilsstöðum á vegum samtakanna Ungs Austurlands. Formaður samtakanna segir skipta máli að vekja athygli á þeim atvinnutækifærum sem í boði eru í fjórðungnum áður en fólk hverfi úr honum til náms.

„Við viljum sýna þau tækifæri sem eru til að koma heim og vinna. Við viljum ekki að fólk hugsi að það geti ekki lært eitthvað því þá geti það ekki unnið á Austurlandi,“ segir Margrét S. Árnadóttir, formaður Ungs Austurlands.

„Hér er mikil flóra fyrirtækja. Það eru mörg fyrirtæki hér þar sem starfar fastur kjarni sem kemur inn án þess fólk verði mikið vart við það.“

Í takt við það hefur verið send út sérstök áskorun til nemenda í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla að sækja sýninguna. „Við höfum hvatt þau til að mæta til að sjá hvað er í boði. Á þessum aldri er fólk að byrja á vinnumarkaði og er þá farið að hugsa hvert það ætlar sér í framtíðinni.“

Margrét segist finna fyrir talsverðum áhuga á sýningunni, bæði meðal almennings og fyrirtækja og stofnana bæði á Austurlandi sem og annars staðar. Þegar séu ýmsir farnir að sýna áhuga á að taka þátt í slíkri sýningu þegar hún verði haldin næst, sem verði vonandi ekki langt að bíða.

Ungt Austurland verður með bás á sýningunni og þar mun Margrét standa vaktina milli 11 og 17 með níu mánaða gömlum syni sínum.

„Við verðum fyrir enda salarins, þar sem fólk er hálfnað að rölta um sýninguna. Þar ætlum við að vera með kaffihúsastemmingu, það verður gott að borða og heitt kaffi þannig fólk geti fengið sér í gogginn á miðjum hringnum. Við verðum líka með poka undir dótið sem hægt er að fá á básunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.