Sýnatakan hafin eystra

Skimun meðan Austfirðinga fyrir covid-19 veirunni hófst á Egilsstöðum og Reyðarfirði um klukkan níu í morgun. Alls er gert ráð fyrir að taka 1500 sýni eystra næstu þrjá daga.

Augljóst var að hugur var í þeim sem vildu mæta í sýnatökuna því klukkan var ekki orðin níu þegar þeir fyrstu voru mættir í Samfélagssmiðjuna á Egilsstöðum.

Þar innandyra beið her heilbrigðisstarfsmanna, klæddum í varnargalla, til að leiðbeina fólki og taka sýni.

Afar takmörkuðum fjölda er hleypt inn í húsið í einu, en röðin gengur hratt þannig að biðin fyrir utan er stutt. Inni er farið í gegnum stöðvar, byrjað á sótthreinsun og að gefa upp komu sína, áður en sýnin eru tekin. Strokur eru teknar bæði úr munni og nefi.

Sýnatakan er í samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands og er hluti af því að rannsaka hve útbreidd covid-19 veiran er í íslensku samfélagi. Til þessa hefur innan við 1% þeirra sem sýni hafa verið tekin úr hjá fyrirtækinu á höfuðborgarsvæðinu greinst með veiruna.

Heilbrigðisstofnanir taka á móti dagsdaglega aðeins sýni úr þeim sem sýna einkenni sýkingar. Sýnatakan tekur ekki af öll tvímæli um hvort veiran hafi tekið sér bólfestu í líkama viðkomandi, aðeins hvort hún sé í mælanlegu magni á því augnabliki sem sýnið er tekið. Meðal annars er sýnatakan þess vegna ekki fyrir fólk sem þegar er í sóttkví.

Sýni verða tekin í Samfélagssmiðjunni á Egilsstöðum og í Molanum á Reyðarfirði í dag, morgun og mánudag, samkvæmt fyrirfram bókuðum tímum. Uppbókað er í alla tíma.

Gert er ráð fyrir að taka 1500 sýni eystra, sem jafngildir 14% Austfirðinga, af þeim sem hvorki eru í sóttkví og orðnir eldri en eins árs. Samkvæmt tölum frá í gær eru 98 í sóttkví eystra og 7 smitaðir. Almannavarnir á Austurlandi minna fólk á að hlýta tilmælum sóttvarnalæknis um hreinlæti, handþvott og samskiptafjarlægð.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Egilsstöðum, var meðal þeirra fyrstu í sýnatökuna í morgun. Berglind Andrésdóttir, hjúkrunarfræðingur, tekur hér sýni úr honum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar