Sýnin tekin á barnum

Vandræði með skráningarkerfi töfðu sýnatöku úr farþegum Norrænu við komu skipsins til Seyðisfjarðar í morgun. Sýnatakan gekk að öðru leyti vel.

„Það urðu smá örðugleikar fyrir farþega að skrá sig inn í kerfið eins og þeir áttu að gera um borð í skipinu og það tafði fyrir okkur. Sýnatakan sjálf gekk snurðulaust fyrir sig,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands sem fór fyrir sýnatökunni í morgun.

Samkvæmt reglum sem tóku gildi í gær þurfa allir þeir sem koma til landsins að gangast undir sýnatöku vegna Covid-19. Undanþegnir eru börn undir 16 ára aldri og þeir sem aðeins hafa dvalist í Færeyjum eða Grænlandi. Því voru alls tekin sýni úr 78 farþegum í morgun.

Vonast eftir niðurstöðum í kvöld

Ferjan lagðist að bryggju um klukkan níu og heilbrigðisstarfsmenn voru komnir um borð tæpum hálftíma síðar. Þeir þurftu þá að stilla upp búnaði sínum en þeir fengu aðstöðu á Naust, kaffihúsi og bar á fimmta dekki, rétt við landganginn.

Sýnatakan sjálf hófst rétt fyrir klukkan tíu. Hún tók um tvo tíma og var lokið skömmu fyrir hádegi en hefði gengið töluvert hraðar hefði skráningarkerfið virkað. Um sýnatökuna sáu þrjú pör sýnatökufólks frá HSA og tveir umsjónarmenn þannig að allt í allt komu átta heilbrigðisstarfsmenn að henni.

Sýnin verða greind hjá Íslenskri erfðagreiningu og fara suður með áætlunarflugi seinni partinn í dag. Vonast er til að niðurstöður liggi fyrir í kvöld.

Stoppar of stutt á sumaráætluninni

Norræna siglir nú eftir vetraráætlun sem þýðir að ferjan stoppar einn og hálfan sólarhring á Seyðisfirði. Um mánaðarmótin skiptir hún yfir í sumaráætlun. Þá kemur ferjan á fimmtudagsmorgnum og staldrar aðeins við í tvo og hálfan tíma.

Þá er von á um 600 farþegum og þykir sá tími of knappur til að geta tekið sýni úr þeim öllum. Þess vegna stendur til að fljúga heilbrigðisstarfsmönnum til Færeyja og taka sýnin á leiðinni yfir hafið. Það átti að gera í þessari ferð til að prufukeyra fyrirkomulagið en ekki var hægt að lenda í Færeyjum í gær vegna þoku.

Ferjan er væntanleg aftur í næstu viku og segir Nína Hrönn ekki enn hafa verið ákveðið hvernig skimað verði þá. Á fundi síðar í dag verði rætt hvernig til tókst í morgun og næstu skref ákveðin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.