„Það þýðir ekki að bíða endalaust“
„Nýsköpun er lykillinn að framþróun allra samfélaga og er því nauðsynlegt að koma í veg fyrir stöðnun og jafnvel hnignun þeirra samfélaga sem hafa reitt sig á svipaðan atvinnubúskap ár frá ári,“ segir Daníel G. Daníelsson, verkefnafulltrúi hjá Icelandic Startups, sem hvetur alla til að senda inn umsókn í frumkvöðlakeppnina Gulleggið, en frestur til þess rennur út þann út 12. september næstkomandi.
Icelandic Startups stendur árlega fyrir Gulleggin en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd og sigurvegari keppninnar fær eina milljón króna að launum.
Gulleggið er nú haldið í tólfta skipti og hefur alið af sér fjöldan allan af sprotayrirtækjum sem mörg hver eru orðin að stórum fyrirtækjum. Sem dæmi um fyrri þátttakendur má nefna Meniga, Karolina Fund, Róró Lulla doll, Pink Iceland, Videntifier og Cooori. Alls hafa 110 fyrirtæki hafnað í topp 10 sætunum frá upphafi og eru 76% þeirra fyrirtækja sem stofnuð hafa verið í kjölfar þátttöku í Gullegginu enn starfandi í dag.
Sigurvegarar Gulleggsins í fyrra voru Atmonia, fyrirtæki sem þróar byltingarkennt ferli til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala. Samtals voru rúmlega hundrað hugmyndir sendar inn í keppnina og á bak við þær stóðu um 500 manns.
„Allir hafa þátttökurétt í Gullegginu“
Daníel segir markmið keppninnar vera að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að koma hugmyndum sínum á framfæri og skapa verðmæti.
„Hugmyndirnar sem eru sendar inn í Gulleggið spanna allan skalann. Viðskiptatækifæri snúast fyrst og fremst um lausnir og á meðan einstaklingar eru leitandi í sínu umhverfi að lausnum mun viðskiptahugmynd alltaf skjóta upp kollinum sem með hjálp Gulleggsins gæti leitt af sér eitthvað ennþá magnaðra. Það þýðir ekki að bíða endalaust og sjá til þegar augnablikið til að skapa eitthvað upp úr engu er núna.
Allir hafa þátttökurétt í Gullegginu, það er einstaklingar, hópar og starfandi fyrirtæki. Að sama skapi er mögulegt að skrá sig án hugmyndar í keppnina og fá þannig tækifæri til að verða hluti af teymi sem hefur þegar skráð sig til leiks. Þáttakendur öðlast dýrmæta reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda sem og rekstri fyrirtækja og er því frábær vettvangur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd á markvissan hátt. Með skráningu býðst þátttakendum fjöldi vinnusmiðja og aðstoð ýmissa sérfræðinga, reyndra frumkvöðla og stjórnenda í íslensku atvinnulífi.“
„Það er nýsköpun allt í kringum okkur“
Daníel segir ekki hægt að átta sig á því hvort hugmynd sé góð eða slæm fyrr en á hana er reynt. „Gulleggið er frábær vettvangur til þess að deila hugmynd sinni og oft á tíðum enda þátttakendur með allt aðra hugmynd í höndunum en þau höfðu í upphafi. Hugmyndin sem slík er sömuleiðis ekki eini lykillinn að velgengni hennar, heldur er mikilvægt að hafa gott þverfræðilegt teymi á sínum snærum. Eins og stundum hefur verið sagt: B-hugmynd með A-teymi er betri en A-hugmynd með B-teymi.“
Daníel hvetur Austfirðinga til að taka þátt. „Það er nýsköpun allt í kringum okkur og hvort sem það er að halda tónlistarhátíð, selja kaffi út um eldhúsgluggann eða þróa flóknar hugbúnaðarlausnir þá auðgar þetta allt okkar samfélag og skapar fjölbreyttara atvinnulíf. Það er meginmarkmið nýsköpunar og þrátt fyrir að vera fjarri höfuðborgarsvæðinu eru Austfirðingar ekki síðri en aðrir í hugmyndaauðga, lausnamiðun og framkvæmdagleði.“
Meðal bakhjarla Gulleggsins eru KPMG, Marel, Landsbankinn, NOVA , ORIGO, Alcoa Fjarðarál og Advel Lögmenn.