„Það var kominn tími á að endurnýja þessi svæði“
„Það eru allir bara mjög ánægðir með þessar framkvæmdir,“ segir Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framvæmda umhverfissviðs Fjarðabyggðar um endurnýjum leiksvæða við grunnskólana á Reyðarfirði og Eskifirði.
Í sumar hefur verið unnið að endurbótum leiksvæða við grunnskólana á Eskifirði og Reyðarfirði. Á Eskifirði var útbúið nýtt leiksvæðisvæði við Eskifjarðarskóla, allt fjarlægt af gamla svæðinu og það endurnýjað. Á Reyðarfirði var skipt um undirlag á hluta svæðisins ásamt því að bæta við leiktækjum og fyrir vikulokin verður þar risinn nýr klifurpýramídi.
Auk þess stóðu íbúar á Reyðfirði fyrir söfnun á „ærslabelg“ sem komið hefur verið fyrir á svæðinu. Á Fáskrúðsfirði var einnig bætt við leiktæki á skólalóðina og verið er að setja upp fleiri leiktæki í lystigarðinum. „Það var kominn tími á að endurnýja þessi svæði sem eru mikið nýtt, ekki bara á skólatíma, þannig að þetta verður kærkomið fyrir íbúa.“