„Það vottaði ekki fyrir eftirsjá hjá henni“

„Ég varð bara gersamlega orðlaus, táraðist og trúði þessu ekki,“ segir Una Sigríður Jónsdóttir, móðir Rúriks Páls Hallgrímsson, tveggja ára gamals drengs sem settur var út á stétt vegna hegðunar í hádegismatnum í gær á leikskólanum Kærabæ á Fáskrúðsfirði.



Una skrifaði svo hljóðandi stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sína í gærkvöldi auk mynd af syni sínum;

„Þessi tveggja ára snáði var að herma eftir einhverjum í matartímanum í leikskólanum í dag sem varð til þess að hann var settur ÚT í stólnum sínum í skítakulda og hágrét þar þegar ein góð vinkona mín kom að sækja barnið sitt,“

Málið er í skoðun

Una fór í skýrslutöku hjá fræðsluyfirvöldum Fjarðabyggðar vegna málsins í morgun. Hún segir að þar beri öllum saman um að slík uppákoma sé aldrei í lagi. Hún hafi einnig farið á fund leikskólastjóra í morgun sem hafi beðist afsökunar á atvikinu. Umræddur starfsmaður, sem er deildarstjóri og menntaður leikskólastjóri, fór einnig í skýrslutöku í morgun ásamt fleiri starfsmönnum leikskólans.

„Það ber öllum saman, barnið mitt var sett óklætt út í kuldann í hádeginu í gær. Hann hafði verið að herma eftir einhverjum, hlægja og fíflast ásamt öðrum börnum og því var gripið til þessa ráðs,“ segir Una.

 


Starfsmaðurinn baðst ekki afsökunar

Eins og segir í stöðuuppfærslu Unu, lét vinkona hennar hana vita af atvikinu.

„Það segja allir að þetta hafi verið stutt stund sem hann var úti, en mér er alveg sama. Hann var settur út í frost og kulda og hurðinni lokað á eftir honum. Þar sat hann svo hágrátandi þegar vinkona mín kom.

Ég hringdi strax í leikskólann og talaði við deildarstjórann sem játaði þessu. Hún sagði mér jafnframt að hún hafi gert þetta áður við annað barn í leikskólanum og hélt líklega að það myndi róa mig, sem það þvert á móti gerði ekki, þá varð ég gersamlega brjáluð. Sérstaklega eftir samtalið við hana þar sem hún bara með hroka og að reyna að sannfæra mig um að þetta væri bara eðlilegasti hlutur í heimi. Af hverju bað hún mig ekki bara afsökunar? Það gerði hún alls ekki og það vottaði ekki fyrir eftirsjá hjá henni.“

 

Á ég að fara með hann í ullarbrók?

Aðspurð hvort Una viti hver framvinda málsins verður og hvað hún vilji sjá aðgert segir hún; „Við eigum að hitta fræðslustjóra aftur í fyrramálið, en þá verður búið að tala við alla sem að málinu koma.

Ég hreinlega veit ekki hvað ég vil sjá að gerist. Ég í það minnsta setti Rúrik Pál ekki í leikskólann í morgun en ætla með hann á morgun og vona að starfsmaðurinn verði ekki með hann, en mér skilst að hann hafi verið í vinnu í dag. Á ég bara að fara með hann og allt í góðu? Á ég kannski að setja hann í ullarbrók ef honum verður hent út aftur? Það eina sem ég veit er að ég vil ekki að starfsfólk komist upp með að haga sér svona, þetta er gersamlega fáránlegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar