Tæp 90% Austfirðinga vilja halda Reykjavíkurflugvelli á sínum stað

Austfirðingar eru langákveðnastir í sinni afstöðu gagnvart því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni, samkvæmt nýrri skoðanakönnun.

Maskína spurði hvort fólk væri hlynnt eða andvígt því að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Afstaða Austfirðinga er mjög eindregin, 88,8% segjast hlynnt því að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Enginn af svæðinu kvaðst andvígur staðsetningunni en 11,2% sögðust í meðallagi hlynnt.

Á landsvísu sögðust 48% hlynnt staðsetningunni. Sá stuðningur hefur dvínað. Lengst af var meirihluti hlynntur, allt upp í 72% þegar Maskína spurði fyrst út í staðsetninguna árið 2013.

Meira segja á öðrum dreifbýlissvæðum nær stuðningurinn engan vegin þeim hæðum sem hann gerir á Austurlandi. Á Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi mælist stuðningurinn yfir 60% með 10% á móti. Á Suðurlandi, Reykjanesi og nágrenni Reykjavíkur er stuðningurinn um 45% en 38% í Reykjavík.

Eldra fólk er mun hlynntara veru flugvallarins í Vatnsmýrinni en það yngra. Þá styðja kjósendur Framsóknarflokks, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks helst núverandi staðsetningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar