Tæpar 150 milljónir í austfirska ferðamannastaði

Tæplega 150 milljónir var í dag veitt til austfirskra verkefna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þjónustuhús við Hengifoss fær næst hæstu upphæðina á landsvísu, 55 milljónir króna.

Alls fær Fljótsdalshreppur tæpar 65 milljónir til framkvæmda á Hengifosssvæðinu. Þar af fara, fyrr segir, 55 milljónir í þjónustuhús þar sem ætlunin er að veita upplýsingar, sinna landvörslu og vera með salernisaðstöðu. Í rökstuðningi kemur fram að um sé að ræða endanlegan styrk til framkvæmdanna en ekki sé veitt full umbeðin styrkupphæð.

Að auki er veitt 7,7 milljónum til að koma fyrir tveimur göngubrún á utanvið ánna og stika þar gönguleið. Að endingu er tæplega 1,9 milljón veitt í viðhald göngustíga, bættar merkingar til verndunar umhverfis og öryggis ferðamanna auk þess að koma upp aðstöðu fyrir sorpflokkun og nestisaðstöðu við bílaplan.

Allir styrkirnir eru skilyrtir við að Hengifosssvæðið verði tekið af landsáætlun og fjárveitingar úr henni afþakkaðar.

Eitt annað verkefni í Fljótsdal hlýtur styrk, 1,6 milljónum króna er veit til að bæta stíga og merkingar á gönguleiðinni upp að Strútsfossi.

25 milljónir í Stuðlagil

Alls er 25 milljónum veitt til tveggja verkefna við Stuðlagil. Annars vegar fær Jökuldalur slf. 21,5 milljón til að fá hóp sérfræðinga til að meta öryggi beggja megin árinnar og koma með tillögur að úrbótum og ásýnd. Mannvirki verði síðan hönnuð eftir þeim og unnið skipulag fyrir svæðið. Þá fær landeigandi Klaustursels styrk til að gera deiliskipulag fyrir aðkomusvæðið að gilinu í landi hans.

Gönguleið upp að Gufufossi

Múlaþing fær samanlagt tæpar 36 milljónir í þrjú verkefni. Stærsta upphæðin, 22,9 milljónir fer til að byggja upp gönguleið frá þéttbýlinu í Seyðisfirði upp að Fjarðarseli og þaðan áfram upp að Gufufossi.

9,5 milljónum er veitt í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðafólk á útsýnissæði sjóflóðavarnagarðanna við Bjólf og bæta þangað vegslóða. Deiliskipulag fyrir verkefni Djúpavogskörin fær 3,4 milljónir.

Ferðaþjónustan í Fossárdal í Berufirði fær 19,7 milljónir til að gera bílastæði og gönguleið að útsýnispalli við áningarstað þar.

Að endingu er tveimur milljónum veitt til til að laga veg og gönguleið upp að Gilsárfossi í Fáskrúðsfirði, ásamt því að gera þar bílastæði og snúningsplan.

Alls var ríflega 800 milljónum króna veitt til 54 verkefna um land allt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.