Tæplega 60 eldingar á Austfjörðum í nótt

Fjölmargir Austfirðingar vöknuðu upp með andfælum í nótt þegar mikið úrkomuveður með þrumum og eldingum gekk yfir svæðið.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands voru eldingarnar frá miðnætti 57 talsins og skiptust nokkuð jafnt milli tveggja úrkomubakka sem lágu yfir svæðinu. „Þetta var öflugur skúraklakki sem gekk yfir og það komu margar eldingar úr sama skýinu,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur.

Nyrðri úrkomubakkinn var norður af Norðfirði og náðu nokkrar eldingar af honum inn á Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Norðfjörð. Þar byrjaði þrumuveðrið klukkan 2:15 í nótt, náði hámarki um klukkan þrjú og var lokið klukkan hálf fimm.

Syðri bakkinn lá yfir Djúpavogshreppi og gekk heldur lengra inn á landið. Hann hófst síðar, fyrstu eldingarnar úr honum mældust klukkan 5:20, þær náðu hámarki um klukkan hálf sjö og voru að mestu búnar um klukkan sjö.

Íbúum á svæðunum þar sem þrumuveðrið var hve sterkast var mörgum nokkuð brugðið yfir látunum sem þeim fylgdu. Þannig hefur Austurfrétt heyrt lýsingar frá Seyðisfirðingum sem hreinlega héldu að skriða hefði fallið úr fjöllunum við bæinn og hrukku því upp af svefni sínum með andfælum. Íbúum í Berufirði og Álftafirði varð einnig vart svefnsamt meðan mestu lætin gengu yfir í morgun.

Skilin eru nú gengin til vesturs og því ekki von á meiri eldingum eystra. Eldingarnar eru skráðar á mæla Veðurstofunnar. Ekki er hefð fyrir að þær séu tilkynntar þangað sérstaklega en þeir sem hafa orðið varir við tjón í kjölfar þeirra eru þó beðnir um að láta Veðurstofuna vita. „Þannig vitum við að það fylgja eldingunum hættur,“ segir Daníel.

Eldingar í kringum Ísland síðustu daga. Rauðu punktarnir sýna eldingar frá miðnætti og þeir appelsínugulu frá í gær. Kort: Veðurstofa Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.