Tæplega 900 Austfirðingar með minnkað starfshlutfall

Tæplega 900 manns á austursvæði Vinnumálastofnunar, frá Vopnafirði til Hornafjarðar, hafa nýtt sér rétt til hlutastarfa. Velferðarráðherra segir tölurnar yfir haldið heldur meiri en reiknað var með en betra sér að fyrirtæki nýti þetta úrræði heldur en segja upp starfsfólki.

Samkvæmt tölum frá því á mánudag höfðu 888 einstaklingar skráð sig í tímabundið hlutastarf. Flestir þeirra voru á Hornafjarðarsvæðinu 354. Á Fljótsdalshéraði voru 245, 151 í Fjarðabyggð, 64 á Djúpavogi, 24 á Vopnafirði og 30 á Seyðisfirði.

Rúm 60% hópsins eru Íslendingar og rúmur helmingur karlmenn. Yngra fólk virðist nýta leiðina frekar en elda. Fjölmennasti aldurshópurinn er 18-29 ára sem eru 35% eystra en 30-39 ára eru 26% Áberandi flestir koma úr ferðaþjónustu, 51%, 17% úr iðngreinum og frumvinnslu, 14% úr verslun og 14% frá opinberum aðilum, félagasamtökum eða söfnum.

Skráð atvinnuleysi samkvæmt sömu tölum á svæðinu er 11,3%. Mest er það í Djúpavogshreppi, 23,3% en 17% á Hornafirði, 14,7% á Vopnafirði, rúm 11% á Borgarfirði og Fljótsdalshéraði og 7-8% í Fjarðabyggð, Seyðisfirð og Fljótsdal.

Margir bættust við á listann fyrstu dagana í apríl. Í gögnunum er greint milli almenns atvinnuleysis í mars og þeirra sem eru í hlutastörfum. Þegar rýnt er í þær tölur kemur í ljós að almennt atvinnuleysi var mest á Vopnafirði 10%, eða rúm 80% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá. Á flestum öðrum stöðum var hlutfallið jafnt, nema á Hornafirði þar sem um 75% á skránni voru á hlutabótum.

Augljóst að úrræðið var mikilvægt

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að heldur fleiri hafi nýtt sér hlutastarfaleið ríkisins en reiknað var með. Betra sé þó að hún sé nýtt heldur en uppsagnir.

„Við reiknuðum með að við fengjum um 20-25 þúsund manns en erum með um 30 þúsund. Þetta kemur samt ekki á óvart því við hvöttum til þess að þessi leið yrði farin og vildum koma með hana strax því við vissum að fyrirtæki væru að íhuga uppsagnir. Það er ekki óeðlilegt að það berist margar umsóknir þegar landið hreinlega stöðvast. Þetta sýnir sig að aðgerðin var mikilvæg,“ segir Ásmundur en áætlaður kostnaður ríkisins við hlutastörfin eru 15-20 milljarðar króna.

Atvinnuleysið er mjög breytilegt eftir svæðum. Þegar horft er yfir landið sést að atvinnuleysi eykst hratt í sveitarfélögum sem stólað hafa á ferðaþjónustu.

Vitum að náttúran fer ekki neitt

Ásmundur Einar segir hlutastarfaleiðina aðeins hafa verið fyrsta úrræði ríkisstjórnarinnar. Fleiri séu á leiðinni. Dreginn er lærdómur af því sem gekk vel eða illa í bankahruninu 2008, en þó hefur sú breyting orðið á þjóðfélaginu nú að hlutfall erlendra ríkisborgara er mun hærra í landinu. Meðal þess sem nú er til skoðunar eru úrræði fyrir námsmenn en von er á að tillögur að aðgerðum verði kynntar á Alþingi eftir páska. „Munurinn nú og í hrununni er að við förum hraðar dýpra niður því það stoppar nær allur heimurinn og enginn atvinnugrein er undanskilin.“

Ásmundur Einar ítrekar hins vegar að mikilvægast sé að koma atvinulífinu aftur af stað, sérstaklega ferðaþjónustunni. Ekki virðist bjart framundan en ráðherrann telur mikilvægt að allt sé til staðar til að geta nýtt tækifærin þegar heimurinn fer aftur af stað.

„Það væri óheiðarlegt af mér að viðurkenna ekki að staðan hefur orðið dekkri viku eftir viku. Það virðist lengjast í þeim tíma sem kreppan varir og hún dýpkar. Við erum að sjá dekkstu spár rætast. Sú þjóðhagsspá sem við í ríkisstjórninni höfum unnið með gerir ráð fyrir að það verði engin ferðaþjónusta í apríl og maí en byrji aðeins í júní. Í dag er óvissa um hvort hún lifni yfir höfuð við þá. Það væri í besta falli skáldskapur að fullyrða nokkuð um hvenær hjólin fari aftur að snúast því veiran virðist óútreiknanleg.

Við vildum ekki að fyrirtæki færu í miklar uppsagnir við þessar kringumstæðum. Við vitum að innviðirnir eru þarna, náttúran hefur ekki farið neitt, hótelin bíða eftir gestum og fólk í heiminum vill ferðast. Spurningin er hversu hratt ferðaviljinn rís á ný.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar