Tæpum 65 milljónum úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

Tæpum 65 milljónum króna var í dag úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til 67 verkefna við athöfn í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Hæsti styrkurinn að þessu sinni fer til Sinfóníuhljómsveitar Austurlands.

Hljómsveitin fékk 3,5 milljónir til að frum flytja nýtt tónverk sem Dr. Charles Ross hefur samið fyrir hana í vor. Þá fær sveitin eina milljón til viðbótar í starf sitt. LungA hátíðin á Seyðisfirði fær þrjár milljónir en hún verður næsta sumar helguð hringrás listar og kynslóðaskiptum. Hátíðin fagnar um leið 25 ára afmæli.

Hæsta atvinnuþróunarstyrkinn fá Skógarafurðir í Fljótsdal og Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, eða 2,5 milljónir. Skógarafurðir ætla að vinna að markaðssetningu á viðarafurðum sínum sem eru kolefnishlutlausar og sjálfbærar en í Sköpunarmiðstöðinni stendur til að byggja upp þróunareldhús. Sköpunarmiðstöðin fær aðrar tvær milljónir í starfsemi sína.

Alls var sótt um 222 milljónir í sjóðinn að þessu sinni en áætlaður heildarkostnaður verkefna var 640 milljónir. Umsóknirnar voru alls 115 eða 15% fleiri en fyrir ári. Úthlutanirnar skiptast í þrennt: 28,9 milljónir fara til 33 menningarverkefna, fimm milljónir í þrjá stofn- og rekstrarstyrki og 30,95 milljónir í atvinnuþróun og nýsköpun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar