Tafir á máli Hannesar: Dómur eftir páska
Dómsuppsaga í máli Hannesar Sigmarssonar, fyrrverandi yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, hefur tafist í Héraðsdómi Austurlands. Til stóð að dómur lægi fyrir um miðjan mars en það dregst fram eftir aprílmánuði.
Frá þessu er greint í DV. Hannes krefst 26,7 milljóna króna í skaðabætur af stofnuninni fyrir ólögmæta uppsögn og fimm milljóna króna frá HSA og framkvæmdastjóranum, Einari Rafni Haraldssyni fyrir „ólögmætrar meingerðar gegn persónu hans og æru.“
Til stóð að dómurinn lægi fyrir um miðjan mars en það hefur dregist. Málið þykir mjög umfangsmikið og er haft eftir lögmanni Hannesar að vegna tafanna þurfi að endurflytja það. Það verði gert strax eftir páska og dómur þá tilbúinn um miðjan apríl. Málið er ekki á dagskránni sem finna má á vef héraðsdóms Austurlands.
„Ég geri ráð fyrir því að réttlætið vinni,“ er haft eftir Hannesi sem vikið var úr starfi fyrir meintan fjárdrátt og óreiðu í reikningum árið 2009. Lögregla rannsakaði málið en felldi það niður þar sem erfitt þótti að sanna ásetning að baki brotunum þótt færslum væri ábótavant. Hannesi var vikið frá störfum úttekt Ríkisendurskoðunar sem sýndi að hann hafði ofkrafið HSA um þóknanir í að minnsta kosti 26 tilvikum. Hannesi var vikið endanlega úr starfi í desember 2009.