Taka í notkun sérútbúinn bíl til landamæravörslu á Austurlandi
Lögreglan á Austurlandi hefur tekið í notkun nýja bifreið sem ætluð er sérstaklega til landamæravörslu í umdæminu. Bifreiðin hlaðin ýmsum þeim tækjabúnaði sem ekki finnst venjulega í hefðbundnum lögreglubifreiðum.
Bæði umdæmið á Austurlandi og umdæmið á Norðausturlandi hafa fengið slíka bifreið til umráða og sú þriðja verður tekin í notkun á höfuðborgarsvæðinu á næstunni. Öll bifreiðakaupin eru sérstaklega styrkt af landamærasjóði Evrópusambandsins en Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri, tók formlega við nýju bifreiðinni fyrir rúmri viku síðan.
Þetta mun gjörbreyta öllu landamæraeftirliti sem og vinnuaðstæðum lögreglunnar í víðfemu umdæmi og sannaði nýja bifreiðin fljótt gildi sitt við prufunotkun fyrir fáeinum vikum síðan.
Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns, er bifreiðin algjörlega sjálfbær; búin rafgeymi, sólarsellu og eigin rafstöð að auki. Þetta þýðir að hægt verður að vinna ýmis verkefni hvar sem er með skömmum fyrirvara. Í honum er ennfremur allur nauðsynlegur búnaður til landamæraafgreiðslu á borð við vegabréfa- og fingrafararskanna. Bifreiðin státar líka af búnaði til ljósmyndatöku og alls er til þarf vegna útgáfu Schengen-áritana.