Talsverðar líkur taldar á rafmagnstruflunum
Talsverðar líkur eru taldar á rafmagnstruflunum á Austurlandi fram yfir hádegi í dag vegna ísingar sem sest á rafmagnslínur. Morguninn og nóttin hafa að mestu verið tíðindalítil hjá viðbragðsaðilum.Í tilkynningu frá Landsneti frá því klukkan níu í morgun er bent á að enn sé von á versnandi veðri fyrir hádegi á Austurlandi og Suðausturlandi austan Öræfa.
Talsverðar líkur eru sagðar á truflunum af völdum vinds og/eða ísingar á byggðalínuna suðaustanlands og á flutningslínur á Austfjörðum, Fljótsdalshéraði og Vopnafirði fram yfir hádegi.
Veðrið tók að versna verulega á Austurland upp úr klukkan sex í morgun. Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að morguninn hefði verið afar tíðindalítill og aðeins borist minniháttar beiðnir um aðstoð.
Enn er að bæta í vindinn og upp úr klukkan níu mældust vindhviður upp á 45 m/s bæði á Vatnsskarði eystra og í Hamarsfirði.
Fjallvegir á Austurlandi eru lokaðir og ferð Strætisvagns milli Akureyrar og Egilsstaða fellur niður. Athugað verður með flug eftir hádegi.