Talsverður áhugi á áformum um virkjun Geitdalsár

Fljótsdalshérað hefur auglýst breytingu á aðalskipulagi vegna hugmynda um virkjun Geitdalsár í Skriðdal. Tvö lón verða reist til að miðla vatni fyrir virkjunina.

Nokkur áhugi var á virkjunarframkvæmdunum þegar almenningi gafst tækifæri á að kynna sér hana í félagsheimilinu Arnórsstöðum á þriðjudag. Þangað lögðu leið sína bæði Skriðdælingar og fleiri áhugasamir sem vildu kynna sér fyrirhugaða framkvæmd.

Hún hefur tekið nokkrum breytingum á þeim árum sem liðin eru síðan Arctic Hydro sýndi fyrst áhuga á að virkja ána.

Samkvæmt þeirri útfærslu sem nú liggur á borðinu verður byggð stífla í Leirudalsá í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar verður til miðlunarlón, um 3 ferkílómetrar að stærð.

Úr því verður vatni veitt niður farveg árinnar, sem fellur í Geitdalsá, í annað lón sem verður þar við ármót Geitdalsár og Ytri-Sauðár. Það lón verður nokkru minna eða um 0,3 ferkílómetrar.

Úr því verður vatni veitt í niðurgrafinni þrýstipípu 6,6 km leið niður í stöðvarhúsið, sem verður nokkuð innan við bæinn í Geitdal. Með því fæst um 200 metra fallhæð en áætluð framleiðslugeta virkjunarinnar er 9,9 MW. Þar verður einnig tekið inn vatn úr Miðá, annarri þverá Geitdalsár.

Frá stöðvarhúsinu mun Geitdalsá falla niður í Múlaá, líkt og nú, sem síðan rennur út Norðurdal Skriðdals áður en hún sameinast Grímsá.

Frá stöðvarhúsinu verður lagður strengur 16 km að spennivirki að Hryggstekk, en einn af styrkleikum staðsetningarinnar þykir vera að stutt sé að tengjast raforkukerfinu. Þá er nokkuð úrkomusamt á vatnasvæðinu.

Athugasemdafrestur vegna aðalskipulagstillögunnar rennur út um helgina. Á næstunni hefst einnig ferli vegna mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Rannsóknir eru áformaðar í sumar og reiknað með að matið verði tilbúið næsta sumar.

Að baki virkjuninni stendur fyrirtækið Arctic Hydro sem hefur sérhæft sig í smávirkjununum. Það hefur meðal annars sýnt áhuga á virkjun Þverár í Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.