Tanni Travel býður öllum í gamaldags rútuferð

„Við erum að bjóða öllum sem vilja í sunnudagsbíltúr þann 6. maí næstkomandi. Dagurinn verður innblásinn af gömlu góðu rútuferðastemmingunni þar sem maður er manns gaman,“ segir Díana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Tanna Travel sem fagnar 25 ára afmæli sínu í ár.


Díana Mjöll segir að segir að þessi hugmynd hafi orðið ofaná þegar farið var að huga að því hvað ætti að gera í tilefni afmælisins.

„Þegar við urðum 20 ára buðum við öllum heim, þar sem farið var yfir söguna og ég tók við framkvæmdastjórastöðunni af pabba. Okkur langaði ekki að gera það sama í ár og því fórum við þessa leið og ákváðum að fara um Fljótsdalinn,“ segir Díana Mjöll.

Farið verður hring í Fljótsdalnum þar sem samstarfsaðilar taka á móti gestum og ýmist gefa sína þjónustu eða veita ríflega afslætti á mat og öðru. „Við komum til með að stoppa í Húsi handanna, Vallanesi, Snæfellsstofu, Skriðuklaustri og Óbyggðasetrinu, auk þess sem eitthvað óvænt sprell bíður farþega á leiðinni. Við verðum ekki með formlega leiðsögn, heldur verður bara opinn míkrafónn þar sem allir geta komið og talað, en ef til vill eru einhverjir af svæðinu.“

 

Nóg pláss fyrir alla

Díana Mjöll segir að rúmlega hundrað manns hafi þegar skráð sig til leiks, en skráning fer fram á síðu Tanna Travel og lýkur henni á morgun. „Mjög mikilvægt er að skrá þátttöku þar, en bæði við og gestgjafar okkar þurfum að undirbúa okkur sem best og vera viðbúin þeim fjölda sem mætir. Við höfum tekið alla okkar bíla frá fyrir daginn þannig að við getum tekið við allt að 600 manns, þannig að það er nóg pláss.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.