Telja umhverfismat vegna fiskeldis í Seyðisfirði ónýtt

VÁ! – félag um vernd fjarðar telur Fiskeldi Austfjarða ekki hafa farið að lögum við gerð frummatsskýrslu fyrir fyrirhugað fiskeldi í Seyðisfirði. Lögfræðingar félagsins segja fullyrðingar fyrirtækisins um að eldið falli ekki undir nýleg lög um skipulag haf- og strandsvæða ekki standast þar sem eldissvæðum hafi verið fjölgað eftir að lögin tóku gildi.

Þetta kemur fram í athugasemd sem lögfræðingur félagins ritaði fyrir þess hönd til Skipulagsstofnunar um frummatsskýrsluna.

Í frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum, sem fyrirtækið gerði, er lýst þeirri skoðun að lög frá 2018 um skipulag haf- og strandsvæða eigi ekki við um fyrirhuguð áform Fiskeldis Austfjarða um 10 þúsund tonna eldi í Seyðisfirði, þar sem málið hafi verið farið af stað áður en lögin tóku gildi og þau séu ekki afturvirk. Þetta þýði að skipulagsreglur og vald sveitarfélaga, nái ekki yfir eldið.

Í umsögn lögfræðings VÁ! segir að þessi tilgáta sé „frumleg en ekki rökstudd“ en lýst þeirri skoðun að eigi nýju lögin ekki við taki önnur lög um skipulag, svo sem hafnarlög við. Það þýði að annars vegar eigi sveitarfélagið óskorað skipulagsvald innan netlega, en framkvæmdirnar taki að hluta til svæða innan þeirra. Hins vegar sé allur fjörðurinn skilgreindur sem hafnarsvæði í reglugerð. Þetta tvennt tryggi skipulag sveitarfélagsins.

Gera athugasemd við viðbót á eldissvæði

Af hálfu Fiskeldis Austfjarða hefur verið bent á að undirbúningur fyrir fiskeldi í Seyðisfirði eigi sér um 20 ára forsögu. Í gögnum frá fyrirtækinu kemur fram að árið 2012 hafi verið gefin út leyfi fyrir 200 tonna eldi á þremur staðsetningum. Það hafi síðan eignast leyfi, sem eru í gildi til ársins 2026, við Háubakka og Sörlastaðavík. Í byrjun árs 2016 hafi farið af stað ferli fyrir 10.000 tonna eldi og síðan verið haft reglulegt samband við stjórnendur sveitarfélagsins.

Lögfræðingar VÁ! gera athugasemdir viðað upphafleg gögn fyrirtækisins hafi miðast við allt annað en frummatsskýrslan geri ráð fyrir. Í upphaflegri matsáætlun hafi verið gert ráð fyrri tveimur eldissvæðum en ekki fjórum. Loks í janúar 2019 hafi verið óskað eftir stækkun eldissvæðis í Sörlastaðavík og að nýtt svæði í Selstaðavík bættist við. Þessar breytingar hafi síðar verið dregnar til baka.

Þá benda þeir á að ekki verði séð að fjallað hafi verið um mögulegt eldi í Skálanesbót. Þetta þýði að frummatsskýrslan sé í verulegri andstöðu við endanlega matsáætlun sem fyrirtækið hafði áður lagt fram.

„Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki séð að FA geti skýlt sér bak við það að mál félagsins hafi verið komið í fastmótað ferli þannig að lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, gildi ekki um fyrirhugaðar framkvæmdir. Það fær enda ekki staðist að unnt sé að leggja fram tillögur af allt öðru umfangi og sniði, en gera síðan svo verulegar breytingar að í engu samræmi er við upphafleg áform,“ segir í umsögninni.

„Í ljósi þeirra annmarka sem að framan greinir verður jafnframt ekki annað séð en að umhverfismat það sem FA hafði frumkvæði að, ónýtist,“ segir í umsögninni.

Fiskeldi Austfjarða hefur lýst því yfir að fallið verði frá eldissvæði undir Háubökkum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.