Telja villtan laxastofn Breiðdalsár í hættu vegna fiskeldis í nágrannafjörðum
Félagar í Veiðifélagi Breiðdæla hafa áhyggjur af því að laxar sem sleppa úr eldi í nálægum fjörðum geti valdið óbætanlegum skaða á stofninum í ánni. Þeir krefjast þess stefnt verði í lokuðum kvíum á landi í stað sjókvíaeldis.„Villtur laxastofn Breiðdalsár er í stórhættu vegna laxeldis í nágrannafjörðum. Við vörum við opnu sjókvíaeldi með frjóum fiski af norskum stofni sem ógnar tilvist villtra laxastofna. Engar mótvægisaðgerðir koma í veg fyrir óhjákvæmileg og varanleg tjón. Lax heldur áfram að sleppa,“ segir í ályktun aðalfundar félagsins sem haldinn var fyrir viku.
Í ályktuninni er lýst er áhyggjum af eldislaxi sem sleppi úr kvíum, sérstaklega seiðum sem ómögulegt sé að sjóngreina þegar þau gangi í ár fullvaxta og kynþroska.
Reynslan sýni að fiskar sleppi fyrir slysni. Vísað er til þess að í lok árs 2017 hafi kuldastormur gengið yfir Austfirði sem laskað hafi kvíar í Berufirði þannig að um 300 tonn af fiski hafi drepist, kvíafestingar gefið sig og líklegt að fjöldi seiða hafi sloppið í hafi.
Aftur hafi sjávarkuldi herjað á eldið í Berufirði síðasta vetur með talsverðum fiskdauða. Þá hafi sést til laxatorfa innan við sjókvíarnar í Berufirði í fyrra sumar. Eldisfyrirtækin eru sökuð um að hafa ekki opinberlega að fyrra bragði tilkynnt um slysasleppingar og alvarleg áföll í eldinu. Það hafi aðrir gert, meðal annars veiðifélagið. Því verði að stórefla opinbert eftirlit með eldinu.
Í ályktunni er því fagnað að áhættumat Hafrannsóknastofnunar með fiskeldi hafi verið lögfest og hvatt til þess að villtir laxastofnar njóti forgangs í því. Varað er við að utanaðkomandi aðilar fái að hafa áhrif á matið.
Ályktað er gegn eldi í opnum sjókvíum sem sögð er úrelt framleiðsluaðferð. Fullyrt er að í nágrannalöndunum sé unnið markvisst að því að draga úr því vegna hrikalegs skaða sem það valdi í lífríkinu. Heitið er áframhaldandi baráttu gegn eldi í opnum kvíum þar sem enga stefnumörkun sé um það að finna í nýjum lögum um laxeldi.
Þá er þrýst á bæjaryfirvöld Fjarðabyggðar að þau beiti sér fyrir að verja villta laxastofna, standi gegn frekari aukningu eldis í opnum kvíum og þau ýti á að það verði fært upp á land í lokaðar kvíar. „Annað er óásættanlegt í ljósi náttúruverndar og traustrar atvinnusköpunar. Þá er óboðlegt að gera Austfirði að rotþróm fyrir úrgang úr eldinu með óhjákvæmilegum skaða fyrir lífríkið og orðspor Fjarðabyggðar.“