Telur litlar líkur á parvó-smiti
Daníel Haraldsson, dýralæknir á Egilsstöðum, hefur aflétt smitvörnum á dýralæknastofu sinni sem hann hefur viðhaft eftir að grunur kviknaði um að þangað hefði komið inn hundur smitaður af parvó-veiru.Tíu dagar eru síðan hundur með einkenni smits kom inn á dýralæknastofuna. Hundurinn var mikið veikur og dó.
Parvó-veiran er bráðsmitandi og tilkynningaskyld. Vegna þessa tók Daníel sýni úr hundinum sem sent var í rannsókn auk þess sem hann gerði varúðarráðstafanir á stofu sinni sem fólust meðal annars í því að hundaeigendur voru beðnir um að koma ekki með dýr sín að fyrra bragði inn á stofuna.
Endanlegar niðurstöður rannsóknar á sýninu liggja ekki fyrir en Daníel segir líkur á að parvó—veirusmiti fara minnkandi. Þá hafi ekki komið upp nein önnur tilfelli. Í ljósi þessa og að lokinni sótthreinsun hafi varúðarráðstöfunum verið aflétt.
Parvó-veiran hefur verið landlæg á Íslandi frá árinu 1992 en sama ár voru teknar upp bólusetningar gegn henni hérlendis. Hún lýsir sér meðal annars með afar blóðugum niðurgangi og uppköstum.