Tengjum menningarsamfélög og byggðakjarna á Austurlandi

„Þemaverkefni BRAS 2019 er tjáning án tungumáls, en það er innblásið af þeirri staðreynda að börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku fjölgar ört á Austurlandi. Tjáning án tungumáls nýtist öllum þátttakendum, sama hver bakgrunnur þeirra eða aðstæður eru,” segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú um Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi verður haldin í annað sinn í september 2019.

BRAS er menningarhátíð þar sem börnum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hátíðarinnar að hvetja börn á Austurlandi til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Markmiðið er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli, tungumálakunnáttu og búsetu. Unnið er þvert á þjóðerni, byggðakjarna og aldur.

„BRAS er góð leið til að byggja brýr bæði á milli menningarsamfélaga og byggðakjarna á Austurlandi og auka samstöðu og samgang barna óháð uppruna og búsetu. Menningarstofa Fjarðabyggðar eða Tónlistarmiðstöð Austurlands í Fjarðabyggð, Skaftfell miðstöð myndlistar á Seyðisfirði og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs verða með fræðsluverkefni en svo er ætlunin að vera með hliðardagskrá sem allir geta tekið þátt í. Við höfum verið að hvetja sveitarfélögin að taka þátt og skila inn dagskrá og það er að skila sér en við viljum endilega fá fleiri og meira,” segir Halldóra Dröfn, en þeir sem vilja taka þátt í BRAS 2019 geta skilað inn upplýsingum um verkefnin fyrir 10. júlí.

Hér má lesa nánar um önnur markmið BRAS sem og framtíðarsýn verkefnisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar