Terra gerir þjónustusamning við SVN og Eskju
Terra umhverfisþjónusta hefur undirritað þjónustusamninga við tvö stór fyrirtæki í Fjarðabyggð, Síldarvinnsluna (SVN) í Neskaupstað og Eskju á Eskifirði.Með samningum við Terra þá stefna þessi félög að því að auka hlutfall efna sem fer til endurvinnslu og lágmarka þann úrgang sem fer til urðunar, að því er segir í tilkynningu. Þegar er byrjað að skoða leiðir til hreinsunar og endurvinnslu á óhreinni plastfilmu, sem þó nokkuð fellur til hjá svona stórum útgerðarfyrirtækjum.
Jafnframt hafa áhafnir skipa þessara útgerða aukið flokkun um borð hjá sér og skila úrgangi flokkuðum í land. „Það eru spennandi tímar framundan og alltaf tækifæri að gera betur fyrir umhverfið,“ segir í tilkynningunni.
Jón Trausti Guðjónsson hjá Terra á Austurlandi ásamt þeim Hlyni Ársælssyni frá Eskju og Húnboga Gunnþórssyni frá Síldarvinnslunni við undirritun samninganna.