Tesla boðar ofurhleðslustöð á Egilsstöðum

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla birti nýverið upplýsingar á vef sínum um að ein af þremur væntanlegum ofurhleðslustöðvum þess hérlends verði staðsett á Egilsstöðum. Talsmaður fyrirtækisins segir markmiðið að koma upp stöðvum þannig að eigendur Teslu bifreiða geti ferðast í kringum landið.

„Við byggjum ofurhleðslustöðvar (e. Supercharger) á þeim stöðum sem eigendur bílanna vilja sækja. Markmiðið er að hægt sé að keyra milli borga, sækja vinsæla ferðamannastaði og svo framvegis,“ segir Even Sandvold Roland, talsmaður Tesla í Noregi í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Á vef fyrirtækisins er einungis gefið upp að væntanleg sé innan tíðar stöð á Egilsstöðum og stefnt að opnun hennar á næsta ári. Ekki er gefið upp nákvæmlega hvar hún verði í bænum. Even segir ekki frekari upplýsingar að fá um stöðina á þessari stundu. Að auki verða stöðvar á Kirkjubæjarklaustri og Stað í Hrútafirði.

Ofurhleðslustöðvar Teslu eru með nokkrum stæðum þar sem Teslu-eigendur geta hlaðið bíla sína með tengingu sem flytur allt að 150 kW. Það þýðir að á 30 mínútum er hægt að hlaða á bílana nógu rafmagni til að keyra 300 km. Stöðvarnar eiga að vera einfaldar í notkun og geta bíleigendurnir að geta fengið meldingu í snjallsímaforrit ef þeir bregða sér frá meðan farartækið er hlaðið.

Ofurhleðslustöðvarnar eru ætlaðar þeim sem hyggja á langferðir en flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima fyrir á nóttunni. Hleðsla Teslu-bifreiðar dugir í allt að 610 km akstur sem á að vera nóg fyrir flesta.

„Þegar við komum með Ofurhleðslustöðvar til Íslands viljum við byggja þær smá saman upp á lykilstöðum sem gera eigendum Teslu-bifreiða kleift að komast auðveldlega á mikilvægustu og vinsælustu áfangastaðina,“ segir Even.

Hjá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði fengust þær upplýsingar að ekki hefði enn borist erindi með ósk um leyfi til uppsetningu stöðvar á vegum Teslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar