„Þetta er nokkurs konar hraðstefnumót“

„Þetta er mjög skemmtilegt framtak og frændur okkar Færeyingar vonast til þess að efla viðskiptasamband og samstarf fyrirtækja í Færeyjum og á Austurlandi,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en Sendistofa Færeyja á Íslandi og Austurbrú standa fyrir fyrirtækjasýningu og viðskiptafundum með færeyskum fyrirtækjum á morgun, þriðjudag, í safnaðarheimili Reyðarfjarðakirkju.


Poul Michelsen, utanríkis- og viðskiptaráðherra Færeyja, fer fyrir þrettán færeyskum fyrirtækjum sem taka þátt. Á sýningunni verður margt áhugavert að skoða, þar á meðal ýmsar lausnir sem færeysku fyrirtækin hafa þróað á undanförnum árum.

Sendistofa Færeyja á Íslandi og Austurbrú standa að sýningunni þar sem 13 fyrirtæki kynna starfsemi sína. Þar mun færeyski tónlistarmaðurinn Hallur Joensen flytja lög auk þess sem boðið verður upp á gómsætan færeyskan mat. Sýningin verður sett upp á þremur stöðum á landinu, á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum.

„Lengi má gott bæta“
Jónína segir að Norræna stytti vegalengdir milli landanna og það sé mikilvægt að nýta. „Það er öllum til hagsbóta að byggja og þróa möguleikana á aukinni samvinnu á sem flestum sviðum, opinberum vettvangi, sem og í viðskiptum. Ísland og Færeyjar eiga með sér fríverslunarsamning, Hoyvíkursamningurinn, sem gerir Ísland og Færeyjar að sameiginlegu efnahagssvæði. Í þessum samningi eru því miklir þróunarmöguleikar Mikið af okkar sjávarútvegsfyrirtækjum eru í góðum samskiptum og viðskiptum við Færeyjar, en lengi má gott bæta.“

Fyrirtæki pöruð saman
Utanríkis- og viðskiptaráðherra, Poul Michelsen, hefur boðað fulltrúa sveitafélaga til fundar við sig af þessu tilefni og mun sá fundur snúa að því að efla og styrkja samband og samtal opinberra aðila.

Fyrirtækin sem koma frá Færeyjum eru SpF Aquamed.fo, Berglon, El-Talvuvirkið í Gøtu Sp/f, Föroya Bjór, Hdygd, KJ Hydraulik, KSS (Slippurinn í Klaksvík), LookNorth, Nomatek, Primafisk, Rock Trawl-doors, Vónin og Vest Pack.

„Þetta verður eins og nokkurs konar hraðstefnumót þar sem fyrirtæki skrá sig og eru pöruð með öðrum sem þau eru talin eiga samleið með,“ segir Jónína, en fyrirtæki á Austurlandi geta skráð sig á sýninguna í tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. en að öðrum kosti er sýningin lokuð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar