„Þetta er það erfiðasta sem við höfum gert hingað til“

„Markmið söfnunarinnar er að styrkja börnin og fjölskyldu á erfiðum tíma. Sorgin er næg þótt fjárhagsáhyggjur bætist ekki ofan á,“ segir Anna Hólm Stefánsdóttir á Egilsstöðum, systir Írisar Daggar Stefánsdóttur, sem lést aðfaranótt miðvikudags eftir að hafa fengið blóðtappa í höfuðið.


Íris Dögg fékk blóðtappa í höfuðið aðfaranótt laugardagsins 25. ágúst síðastliðinn og lést á Landspítalann í Fossvogi ellefu dögum síðar. Hún komst aldrei til meðvitundar. Hún var aðeins 35 ára gömul og skilur eftir sig fjögur börn á aldrinum 12–21 árs. Elsta dóttir hennar á von á sínu fyrsta barni daginn fyrir jarðarför Írisar Daggar, sem verður 22. september.

 

„Stoðnetið fyrir austan er mjög gott“

„Íris Dögg var á örorkubótum og átti því ekki kost á líftryggingu. Hún átti heldur engan varasjóð og því eru litlir fjármunir til staðar til að standa straum af útför eða tryggja fjárhagslega velferð barna hennar í framtíðinni. Við höfum fengið afar mikið af fallegum kveðjum og skilaboðum og boðum um aðstoð en erum bara enn að reyna að átta átta okkur á þessu, erum eiginlega með höfuðið á „rest mode“ og einhvernvegin líðum áfram. En þegar nær dregur jarðarför munum við þiggja þá aðstoð sem verður í boði. Stoðnetið fyrir austan er mjög gott það höfum við fundið síðustu daga. Fólk er oft að blóta þessum litlu stöðum vegna kjaftagangs og annars, en ég segi alltaf að maður geti alveg leitt það hjá sér, því þegar eitthvað svona gerist eru þessi litlu samfélög alveg ómetanlega þar sem allir standa saman,“ segir Anna Hólm.


„Við vitum að við getum þetta“
Anna Hólm segir fjölskylduna reyna sitt besta til þess að halda í jákvæðnina í erfiðum aðstæðum. „Í rauninni var þetta það besta í stöðunni fyrst þetta þurfti að gerast. Læknarnir sögðu að skaðinn í heila hefði verið svo mikill að ef hún hefði lifað hefði hún orðið alglerlega lömuð og það er ekki eitthvað sem við hefðum viljað. Þetta er það sem við erum að reyna að horfa á og krakkarnir taka þann pólinn líka. Auðvitað eigum við eftir að fara upp og niður og þetta er það erfiðasta sem við höfum gert hingað til. En ef við stöndum saman og nýtum okkur þá aðstoð sem við eigum kost á þá getum við þetta, það verður mjög erfitt en við vitum að við getum þetta,“ segir Anna Hólm.

Söfnunarreikningurinn er á nafni og kennitölu móðursystur Írisar Daggar, en söfnunarreikningurinn er: 0123-05-010052, kennitala: 150160-2439

DV birti sögu Írisar Daggar í morgun og meðal annars þetta fallega ljóð sem Ásgeir Páll Baldursson, unnusti Írisar Daggar, orti í minningu hennar.

Alltaf þú brúaðir bilið á milli
bræddir mitt hjarta sorgir og sár
Þú skalt því hafa hug þess og hylli
heiðvirð um ókomin ár

Lífið er dans ekki alltaf á rósum
lifnaði aldrei hinn fegursti dans
Bjartsýnn þó riti úr bókum og glósum
bljúgur minn fegursta krans

Oft finnst birtan falleg í heiði
fegurstu dagarnir draumana fá
Sú mun sólrík skína á þitt leiði
sælt verður hana að sjá

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar