„Þetta var mjög döpur stund“; Hópuppsögn hjá Haustak í Fellabæ

Öllum almennum starfsmönnum Haustaks í Fellabæ var sagt upp síðustu mánaðamót, alls fimmtán talsins, en illa gengur að selja þurrkaða þorskhausa og skreið til Nígeríu.



„Þetta hefur svosem verið yfirvofandi síðsn í september, verðin hafa lækkað um 60% og kaupmátturinn í Nígeríu hefur náttúrulega dalað mikið eftir að olían hrundi,“ segir Víkingur Þórir Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks.

„Við erum alltaf að bíða og vona að það rætist úr þessu en ég er ekkert voðalega bjartsýnn á að það gerist, allavega ekki á næstunni.

Vinnslan er ennþá gangandi, þó svo verulega hafi verið dregið úr henni. Fólkið okkar er með uppsagnarfrest frá einum og upp í sex mánuði, þannig að þeir tveir sem áttu aðeins einn mánuð detta út um næstu mánaðamót.

Þetta er mitt versta augnablik sem stjórnandi, en þó svo að fólkið hafi líklega verið búið að átta sig á stöðunni er alltaf jafn erfitt þegar tuskan svo loksins kemur, það er annað að búast við því en svo upplifa það. Þetta var mjög döpur stund.“


Góður mórall innan fyrirtækisins

„Þetta var svosem viðbúið og fólk er farið að horfa í kringum sig eftir annarri vinnu,“ segir Hilmar Haukur Friðriksson, trúnaðarmaður starfsmanna í Haustaki.

„Auðvitað vona allir að þetta bara leysist og vinnslan muni halda áfram með óbreyttu sniði. Þetta er mjög sorglegt, þetta er gamalgróið og gott fyrirtæki, mórallinn hér er alveg frábær og sá besti sem ég hef upplifað á vinnumarkaði. Svo er ekki eins og það sé mikið um önnur atvinnutækifæri á svæðinu, sjálfur stefni ég á að fara suður til fjölskyldunnar. En, forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu að það væri alveg einhver möguleiki á að það héldi áfram, við þurfum bara að bíða og sjá.“


Gerum allt sem í okkar valdi stendur

„Vissulega höfum við áhyggjur af þessu, en vonum að þetta leysist,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Egilsstöðum. „Við höfum vitað af þeim erfiðleikum sem eru með að koma vörunni á markað í Nígeríu. Fimmtán manns eru margir starfsmenn í ekki stærra samfélagi auk þess sem við höfum verið ánægð með fyrirtækið sem er til mikil sóma. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa til og standa við bakið á þeim, en ég vænti þess að þeir séu að vinna vel í þessu máli.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.