„Það vilja allir vera með ærslabelg“
„Mér sýnist belgurinn nýtast mjög vel, það eru alltaf krakkar á honum nema í mikilli rigningu,“ segir Jón Ólafur Eiðsson, meðlimur í foreldrafélagi Grunnskóla Reyðarfjarðar, en félagið stóð fyrir söfnun og uppsetningu ærslabelgs á Reyðarfirði í sumar.
Sannkallað ærslabelgjaæði hefur gripið um sig á Austurlandi í sumar og eru slíkir belgir komnir upp í flestum bæjum eða eru þá í undirbúningsferli.
„Þetta byrjaði allt með því að foreldrafélagið sótti um styrk hjá Alcoa Fjarðaáli fyrir ærslabelg. Sótt hefur verið um styrkinn áður en af því að jákvætt svar fékkst í þetta skiptið byrjaði boltinn að rúlla og fjármögnun fór af stað,“ segir Jón Ólafur, en Fjarðaál veitti 300 þúsund krónum til kaupanna.
„Í það minnsta 60% upphæðarinnar kom frá fólkinu á staðnum"
Jón Ólafur segir verðið á belgnum hafi verið hærra en talið var í fyrstu, en í heildina kostaði hann með gúmmímottum rúmar tvær milljónir króna.
„Settur var á laggirnar vinnuhópur á Facebook sem fór á fullt í að sækja um styrki til fyrirtækja, þar sem foreldrar í bænum hjálpuðust að og þar af leiðandi foreldrafélaginu. Söfnunin gekk mjög vel í fyrstu og var fljótlega komin upp í eina milljón þegar örlítil lægð kom í hana,“ segir Jón Ólafur sem þó pantaði belginn.
„Einari Karlssyni, sem selur þessa belgi, er slétt sama hvort hann fái borgað strax eða seinna, hann vill bara að fólk njóti. Hann kom svo austur og setti belginn upp hjá okkur og á öðrum stöðum í fjórðungnum. Eftir það fór fjármagnið að hrúgast inn og þó svo ég sé ekki alveg búinn að kynna mér það nákvæmlega, þá held ég að óhætt sé að fullyrða að í það minnsta 60% upphæðarinnar kom frá fólkinu á staðnum, þannig að bæjarbúar eiga þetta að mestu sjálfir.“
„Það var pressa alls staðar frá“
Jón Ólafur er ánægður með afraksturinn. „Það var pressa alls staðar frá, það vilja allir vera með ærslabelg. Það var kominn tími á að fá einhver læktæki á skólalóðina, en ekkert hafði gerst í þeim málum í mörg ár, en á því hefur svo sannarlega orðið breyting síðustu vikurnar,“ segir Jón Ólafur og vísar í endurbætur sem unnar hafa verið á skólalóðinni á Reyðarfirði að undanförnu.