Þekktur arkitekt með Vök Baths á forsíðu bókar sinnar

Vök Baths prýðir forsíðu bókarinnar “Architecture of Bathing, Body, Landscape, Art” sem er nýkomin út. Bókin er eftir kanadíska arkitektinn Christie Pearson. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar bókin um arkitektúr og hönnun baðstaða.

„Það er mikill heiður fyrir Vök Baths að hafa verið valin til að prýða forsíðu þessar merku bókar,“ segir Heiður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Vök Baths.

„Höfundur bókarinnar hafði samband við Basalt arkitekta á síðasta ári vegna vegna vinnu þeirra við baðstaði víða um landið,“ segir Heiður. 

„Hún tók viðtal við þá og spurði út í öll baðtengdu verkefnin þeirra sem eru þó nokkur og þar á meðal eru t.d. Bláa lónið, Sjóböðin og auðvitað Vök Baths.  Efni og myndum í bókina var safnað úr mörgum ólíkum hornum heimsins." 

Heiður segir að sér skilst svo að rithöfundurinn hafi einfaldlega valið myndina af Vök úr öllum þessum myndum í bókinni.  „Bókin er annars mjög yfirgripsmikil og við því gífurlega stolt að verða fyrir valinu,“ segir hún.

„Ég hef eftir arkitektum að þetta sé ein besta heimild um arkitektúr baða (í víðum skilningi) sem hefur verið gefin út, allavega í seinni tíð. Hún er í senn fræðileg, persónuleg, pólitísk og fjallar um hönnun, mjög áhugaverð blanda.“

Bókin hefur þegar fengið talsvert lof gagnrýnenda, m.a. New York Times sem mælir með henni.

Christie Pearson er sem fyrr segir kanadískur arkitekt og starfar sem prófessor við University of Waterloo School of Architecture þar sem hún kennir hönnun.

Christie hefur verið skráður félagi í samtökum arkitekta í Ontario undanfarin 20 ár. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna á sviði arkitektúrs og landslagshönnunnar á liðnum árum.

Mynd: M. Veenman / Njóta Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.