„Þetta er í takt við vilja Seyðfirðinga“

Forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar fagnar langþráðri skýrslu sem samgönguráðherra kynnti í morgun um jarðgangakosti til staðarins. Baráttu þeirra fyrir göngum er þó hvergi nærri lokið.

„Ég held að Seyðfirðingar verði mjög ánægðir með þessi tíðindi. Þetta er í takt við þeirra vilja og í samræmi við það sem við bjuggumst við,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar.

Skýrslan er afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var haustið 2017 til að meta jarðgangakosti til Seyðisfjarðar. Niðurstöður starfshópsins er að leggja til að ráðist verði í gerð jarðganga frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar og þaðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð þar sem byrjað verði á göngum undir Fjarðarheiði.

„Í okkar huga er þetta fyrsti áfanginn sem gerir okkur kleift að komast á milli staða og gera Austurland að einu atvinnusvæði. Ég held að í framtíðinni muni Austurland sameinast í eitt sveitarfélag,“ segir Hildur.

Í skýrslunni segir að sjö ár taki að gera Fjarðarheiðargöng og fyrir það þurfi tveggja ára undirbúningstíma. Næsta skref Seyðfirðinga er að þrýsta á um að undirbúningur fari sem fyrst af stað. Endurskoðuð samgönguáætlun fer fyrir Alþingi í haust.

„Skýrslan er áfangasigur í langri vegferð. Nú sjáum við hvað Alþingi gerir, hvort við fáum ekki stuðning þaðan. Við bíðum enn eftir tímasetningum, þær eru lykilatriði og Seyðfirðingar eru, eins og gefur að skilja, óþolinmóðir eftir langa við. Aðalmálið er þó að áfanginn í dag er mjög jákvæður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.