Þingmenn minntust Helga Seljan við upphaf fundar í dag

Helga Seljan, fyrrum þingmanns Austurlands, var minnst við upphaf fundar Alþingis í dag. Helgi lést á Landsspítalanum síðasta þriðjudag, tæplega 86 ára gamall.

Helgi Seljan Friðriksson fæddist á Eskifirði þann 15. janúar árið 1934. Nokkurra mánaða gamall var hann tekinn í fóstur að Seljateigi í Reyðarfirði, ólst þar upp og tók nafn sitt af bænum.

Helgi lauk kennaraprófi og kenndi fyrst á Fáskrúðsfirði í tvö ár áður en hann gerðist kennari á Reyðarfirði árið 1955. Hann var skipaður skólastjóri þar árið 1962 og gegndi því starfi þar til hann var kosinn á þing árið 1971 en tvisvar áður hafði hann tekið sæti sem varaþingmaður.

Helgi var fyrst á framboðslista Sósíalista í Suður-Múlasýslu við þingkosningar árið 1956 og síðar á lista Alþýðubandalagsins í Austurlandskjördæmi. Hann var fyrst landskjörinn þingmaður 1971 eftir gott gengi Alþýðubandalagsins í kosningum það sumar og síðar kjördæmakjörinn þegar Alþýðubandalagið varð stærsti flokkurinn í Austurlandskjördæmi árið 1956.

Barðist fyrir málefnum fatlaðra

Í minningarræðu sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hélt um Helga í dag sagði hann að Helgi hefði ekki sóst eftir æðstu metorðum í sínum flokki þótt þau hefðu staðið honum til boða, heldur kosið starf þingmannsins. Helgi sat á þingi til ársins 1987, er hann ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri. Hann sat jafnan í efri deild og var forseti hennar 1979–1983 en var jafnframt oft varaforseti þar og í sameinuðu Alþingi. Eftir þingferilinn gerðist Helgi félagsmálafulltrúi og síðar framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands auk þess að starfa með eldri borgurum.

Steingrímur minntist þess að Helgi hefði frá upphafi þingsetu sinnar verið talsmaður flokks síns í félags- og velferðarmálum og sat í nefndum sem við þá málaflokka fengust. Sem slíkur hefði hann komið mörgum framfaramálum fatlaðra og öryrkja áleiðis. Hann hefði jafnframt látið sér annt um hag kjördæmis síns og sinnt því vel. Steingrímur rifjaði einnig upp að Helgi hefði alla tíð barist fyrir áfengisvörnum og bindindismálum.

Einkar vel látinn í hópi þingmanna

„Helgi átt létt með að yrkja, var söngvinn og hafði gaman af að skemmta fólki með græskulausum gamanmálum og leiklist. Þess nutu þingmenn, starfsmenn þingsins og raunar margir landsmenn. Ófáir voru þeir heimilismenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem nutu þess að þeir vinirnir Helgi og Karvel Pálmason töldu ekki eftir sér, bæði á meðan og eftir að þingmennsku þeirra lauk, að koma og létta mönnum lund með söng og gamanmálum.

Helgi var einkar vel látinn í hópi þingmanna fyrir sitt glaða skap, heiðarleika og hreinskiptni í samstarfi, svo og fyrir dugnað og alúð við þingstörfin. Hygg ég ekki ofmælt að hann hafi verið einn vinsælasti og vinflesti þingmaðurinn á sinni tíð og gekk það þvert á flokksbönd,“ sagði Steingrímur í dag.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Jóhanna Þóroddsdóttir. Börn þeirra eru Helga Björk, Þóroddur, Jóhann Sæbert, Magnús Hilmar og Anna Árdís. Afkomendur þeirra eru 34.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.