Þjóðgarðsfundi frestað á ný vegna bilaðrar flugvélar
Kynningarfundi umhverfis- og auðlindaráðherra um fyrirhugaðan Hálendisþjóðgarð, sem halda átti á Egilsstöðum í kvöld, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Bilun í vél Air Iceland Connect veldur því að ráðherrann kemst ekki á staðinn.Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var ráðherrann ásamt fylgdarliði og örðum farþegum kominn út í áætlunarflugvél flugfélagsins sem fara átti úr Reykjavík klukkan 18:00 í kvöld.
Þá var tilkynnt um að bilun hefði komið upp þannig að allir farþegar fóru frá borði á ný. Ekki er enn ljóst hvort síðasta ferð dagsins austur verði flogin en á vef fyrirtækisins kemur fram að næstu upplýsinga sé að vænta klukkan 20:00.
Þó er ljóst að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kemst ekki austur í tæka tíð fyrir fundinn sem boðaður var klukkan 19:30 í kvöld. Nýr fundartími liggur ekki fyrir.
Þetta er í annað skiptið sem ráðherrann neyðist til að fresta fundinum. Upphaflega stóð til að halda hann fyrir viku en það gekk ekki eftir vegna illviðris um land allt.