Þjónustumiðstöðin við Hengifoss tilbúin síðla í júní

Það verður fyrirtækið Austurbygg verktakar ehf. sem hefur tekið að sér lokafrágang á nýju og glæsilegu þjónustuhúsi sem Fljótsdalshreppur reisir við Hengifoss. Verkinu skal lokið þann 23. júní.

Upphaflega stóð til að keyra verkefnið af stað síðla árs í fyrra og af krafti svo húsið gæti orðið tilbúið áður en ferðamannavertíðin gekk í garð síðasta sumar en sökum erfiðleika við að fá verktaka að framkvæmdinni gekk það ekki upp. Nú horfir betur við og mun það verða byggingafyrirtækið MVA sem sjá mun um alla steypuvinnu og koma mynd á húsið en Austurbygg tekur svo við og fullklárar verkið.

Þjónustumiðstöðin sjálf falleg og fellur vel að umhverfi sínu enda hlaut hönnun hússins sérstök verðlaun en hönnuðir eru Eirik Rönning Andersen og Sigríður Anna Eggertsdóttir.

Bygging hússins verður rúsínan í pylsuendanum við Hengifoss en mikið hefur verið fært til betri vegar við þessa vinsælu náttúruperlu Austurlands síðustu misserin. Göngustígar verið bættir til muna og nýjar göngubrýr settar upp og heimildir Austurfréttar herma að fleira geti verið á döfinni við Hengifoss í náinni framtíð.

Oddviti Fljótsdalshrepps, Jóhann F. Þórhallsson, og Ívar Karl Hafliðason, verktaki, skrifa undir verksamning um lokafrágang að nýrri þjónustumiðstöð. Mynd HG

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar