Þorsteinn Bergsson leiðir Sósíalista
Þorsteinn Bergsson, rithöfundur og þýðandi á Egilsstöðum, mun leiða lista Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi.Þorsteinn er ekki óvanur þingframboðum. Hann var lengi félagi í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, en skipti yfir í Regnbogann fyrir kosningarnar 2013 og Alþýðufylkinguna 2016 og 17. Hann var oddviti síðarnefnda framboðsins í bæði skiptin.
Þorsteinn lauk B.Sc. í búvísindum frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og starfaði lengst af sem sauðfjárbóndi á Unaósi í Hjaltastaðaþinghá áður en hann réðist til Matvælastofnunar þar sem hann starfaði um árabil sem búfjáreftirlitsmaður. Hann vakti athygli í liði Fljótsdalshéraðs sem sigraði spurningakeppnina Útsvar.
Í tilkynningu Sósíalistaflokksins segir að Þorsteinn sé „vinstrimaður af öllu hjarta.“ Eignarhald á landi og fyrirtækjum sem telja megi til nauðsynlegra innviða sé honum hugleikið. Hann telji brýnt að ríki og sveitarfélög grípi inn í húsnæðismál og tryggi fólki aðgang að leiguhúsnæði á mannsæmandi kjörum. Fjármálakerfinu þurf að gera ljóst að það á að styðja við fjölskyldur og fyrirtæki í landinu en ekki sjúga úr þeim þróttinn.