Þórunn Egilsdóttir látin

Þórunn Egilsdóttir, fyrrverandi þingmaður frá Vopnafirði, lést seint í gærkvöldi á 57. aldursári. Þórunn hafði síðustu misseri glímt við krabbamein.

Þórunn var fædd í Reykjavík árið 1964. Hún lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands en flutti síðan austur á Vopnaförð til starfa við kennslu.

Þar kynntist hún Friðbirni Hauku Guðmundssyni og saman hófu þau sauðfjárbúskap á Hauksstöðum, innsta bæ í Vesturárdal. Þórunn lauk síðan kennaraprófi árið 1999 en hún starfaði við kennslu allt fram til 2008.

Þórunn gegndi fjölda trúnaðarstarfa í sinni heimasveit, en hún var kosin í sveitarstjórn árið 2010 og tók strax við sem oddviti. Hún sinnti þeim störfum þar til hún var kosin á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi vorið 2013.

Þórunn var meðal annars formaður samgönguráðs, fyrsti varaforseti Alþingis 2016-17 og formaður þingflokks Framsóknarflokksins 2015 og svo aftur frá 2016.

Þórunn greindist með brjóstakrabbamein í mars 2019. Hún hafði betur þá og sneri aftur til þingstarfa vorið 2020. Skömmu fyrir síðustu jól kom í ljós að hún stríddi við krabbamein í lifur. Hún hóf þá strax stranga lyfjameðferð og tilkynnti í byrjun þessa árs að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi þingmennsku.

Eftirlifandi eiginmaður Þórunnar er Friðbjörn Haukur Guðmundsson. Þau áttu saman þrjú börn: Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar