Þrautreyndur þjófur dæmdur í 18 mánaða fangelsi

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi nýverið pólskan karlmann í eins og hálfs árs fangelsi fyrir fjölmörg innbrot hérlendis, meðal annars á Austfjörðum. Rétt þótt að hneppa manninn í fangelsi í ljósi langs brotaferils víða um Evrópu.

Karlmaðurinn var handsamaður eystra í lok júní. Hann hafði þá hundsað stöðvunarskyldu lögreglu við bæ í Breiðdal en ók bifreið sinni framhjá og þvert yfir veginn þannig að hún hafnaði utan vegar.

Það umferðarlagabrot er eitt af finn brotum sem talin eru upp í ákæru en maðurinn er dæmdur fyrir að hafa farið inn í fjögur ólæst hús og stolið þaðan peningum, skartgripum og lausafé. Í eitt skiptið hafði hann ekkert upp úr krafsinu en réðist hins vegar á húsráðanda á Fáskrúðsfirði. Hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi á síðustu tíu árum tólf sinnum verið gerð refsing í Evrópu. Listinn er nokkuð fjölbreyttur: þjófnaður í Noregi, innflutningur fíkniefna, þjófnaður og eignaspjöll í Þýskalandi, þjófnaður og umferðarlagabrot í Austurríki, þjófnaður í Danmörku, þjófnaður í Lúxemborg auk brottvísunar úr landi og þjófnaður í Svíþjóð.

Á síðasta ári fékk maðurinn refsingar í þremur löndum: Svíþjóð, Þýskalandi og Póllandi.

Í ljósi langs sakaferils taldi dómari ekki rétt að skilorðsbinda 18 mánaða refsidóm. Tveggja vikna gæsluvarðhald dregst þar þó frá. Þá var manninum gert að greiða rúma milljón í sakarkostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.