Þriðji kaldasti ágústmánuður austanlands frá aldamótum

Annað árið í röð reyndist ágústmánuður í kaldara og blautara lagi austanlands en í síðasta mánuði náði meðalhiti mánaðarins hvergi tveggja stafa tölu á nokkurri veðurstöð í fjórðungnum.

Þetta opinberast á úttekt Veðurstofu Íslands á veðurfarinu í ágúst en þar kemur reyndar fram að mánuðurinn sá hafi verið í kaldari lagi um land allt. Reiknast Trausta Jónssyni, veðurfræðingi, til á vef sínum Hungurdiskum að ágúst hafi verið sá þriðji kaldasti á Austurlandi frá síðustu aldamótum.

Aðeins á þremur veðurstöðvum austanlands, Seyðisfirði, Hallormsstað og Egilsstöðum, fór hitastig yfir 20 stigin í liðnum ágústmánuði en þá mældist jafnframt hiti undir frostmarki í mánuðinum bæði á Egilsstöðum og í Jökuldal.

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði og Egilsstöðum eða 9,4 stig, 9,3 á Eskifirði og 9,2 í Neskaupstað og Hallormsstað. Meðalhitinn í ágúst 0,9 stigum undir meðaltalinu frá árinu 1991 á Egilsstöðum og 0,6 stigum undir sama meðaltali bæði á Dalatanga og Teigarhorni.

Það einnig á Dalatanga og í Neskaupstað þar sem úrkoma ágústmánaðar mældist með mesta móti en víða rigndi það mikið og oft að bændur ýmsir lentu í vandræðum með heyskapinn.

Á vef sínum fer Trausti Jónsson yfir ástæður þess hve svalt hefur verið undanfarið um land allt: „Í þessu tilviki er ástæða svalans tiltölulega einföld. Við landið hefur setið stór kuldapollur, loftið ættað af norðlægum slóðum, annað hvort leifar síðasta vetrar - eða hefur kólnað þar í sumar yfir íshafinu. Það hefur síðan hvað eftir annað leitað til suðurs, oftast meðfram Vestur-Grænlandi og síðan hingað - og þá úr suðvestri. Eitthvað hefur verið um það að loftið hefur einnig komið beint úr norðri. Þessi kuldapollur hefur haldið öllu hlýju lofti frá landinu í ágúst - og reyndar lengst af í júní og júlí líka.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar