Þrjú einbýlishús risið í Neskaupstað á einni viku
Mikil uppbygging er í Neskaupstað um þessar mundir en byggingarfyrirtækið Nestak er að reisa þrjú einbýlishús, leggja lokahönd á tvær íbúðir og grafa grunn fyrir 1200 fm iðnaðarhúsnæði. Einn eigenda Nestaks segir mikla þörf á húsnæði í bænum en það vanti líka menntað fólk í allskyns störf í bænum.
Nestak hóf á þriðjudaginn að reisa þrjú tveggja herbergja einbýlishús á Strandgötu 18a, 18b og 16. Húsin koma frá Trésmiðjan Akri á Akranesi og Nestak fær einnig hjálp þaðan við að reisa þau. Eiríkur Simonsen, einn eigenda Nestaks, segir að þau geri ráð fyrir að klára að reisa húsin og loka þeim fyrir helgina. Þá stendur eftir að einangra húsin að innan og innrétta.
Eitt einbýlishús á Strandgötu er selt og verður tilbúið til afhendingar í maí. Hin húsin verða seld þegar búið er að ganga frá rakasperru og einangrun.
Nestak er líka með tvær íbúðir á Hafnarbraut sem eru seldar, á sömu lóð og Vínbúðin og Lyfja eru á. Nestak keypti lóðina af Fjarðabyggð og er húsnæðið í útleigu til Lyfju og Vínbúðarinnar. Íbúðirnar á lóðinni verða 70 fm með 35 fm bílskúr. Eiríkur gerir ráð fyrir að íbúðirnar á Hafnarbraut verði klárar í maí.
Eiríkur segir Nestak hafa viljað sýna lit og mæta eftirspurn eftir húsnæði í bænum. Þau hafi ákveðið að byggja á Hafnarbraut vegna þess að þau áttu lóðina fyrir. Einbýlishúsin á Strandgötu höfða til þeirra sem vilja minnka við sig eða eru að stíga fyrstu skrefin á fasteignamarkaðnum að sögn Eiríks.
Iðnaðarhúsnæðið verður við Naustahvamm 58 og áætlað er að það verði byggt í sumar. Í húsinu verða 12 bil og búið er að selja 9 af þeim. Eiríkur segir mikla vöntun á slíku húsnæði í bænum en að þar verði bæði fyrirtæki og einstaklingar með aðstöðu og þjónustu.
„Það er mjög mikil þörf á húsnæði en það vantar líka fólk í bæinn, það er fullt af lausum störfum og nóg um að vera hérna. Okkur vantar alltaf menntað iðnaðarfólk, erum að meðaltali 15-20 að vinna hjá Nestak og alltaf með nóg af nemum,“ segir Eiríkur.
Eiríkur segir að það megi byggja fleiri hús og mikla eftirspurn eftir húsnæði í allskyns stærðum. Hann segir vandamálið liggja í því að Fjarðabyggð sé með of fáar lóðir á skrá í Neskaupstað. „Alveg hægt að halda áfram að byggja, eina vandamálið er að Fjarðabyggð mætti vera með fleiri lóðir tilbúnar. Það eru bara örfáar lóðir á skrá sem er synd af því eftirspurnin er mikil og mikið af atvinnutækifærum í bænum,“ segir Eiríkur.
“Við viljum byggja meira en ætlum að reyna að selja allt þetta fyrst, planið hjá okkur á þessu ári er að klára iðnaðarhúsið og einbýlishúsin, viljum selja þau fokheld svo við getum einbeitt okkur að öðrum verkefnum.”
Mynd: Þórarinn Ómarsson