Þrjú millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll yfir helgina

Óvenju annasamt hefur verið á Egilsstaðaflugvelli síðustu daga þar sem þrjú millilandaflug hafa farið um völlinn. Nýr tæknibúnaður á vellinum reyndist vel við þessi tilefni.

Fyrsta flugið var til Marrakess í Marokkó á miðvikudag, næsta til Katowice í Póllandi á fimmtudagsmorgunn og loks til sama staðar á föstudagsmorgunn. Fyrstu tvær vélarnar komu til baka í gærkvöldi en sú síðasta seinni partinn í dag.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, segir að nánast fullt hafi verið í öll flugin og afgreiðsla gengið vel. Tvö fluganna hafi verið á sama og áætlunarflug innanlands en flugstöðin hafi haldið vel utan um þann fjölda fólks sem var á ferðinni og vel gengið að innrita og kalla út í vélarnar samtímis.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar um flugin segir að talsverður fjöldi gesta hafi komið á einkabíl og ánægja verið með að nóg hafi verið af stæðum.

Starfsfólk Isavia sá um öryggis- og vopnleit, Icelandair um innritun, lögreglan um vegabréfaeftirlit og GG þjónusta um veitingar í kaffiteríu. Sigrún Björk segir alls staðar hafa tekist vel til.

Nýverið var tekin í notkun á vellinum ný vél sem skimar fyrir efnum sem ekki má hafa með í flug. Hún reyndist vel en kostnaður við hana er um sex milljónir króna.

Í næsta mánuði eru síðan á dagskrá flug til Veróna á Ítalíu og Aberdeen í Skotlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar