Þurfa að aka hundruði kílómetra til að komast í hraðpróf eða sprautu

Hafi íbúar á Djúpavogi eða nærsveitum áhuga á því að taka annaðhvort Covid-hraðpróf ellegar fá örvunarsprautu gegn veirunni er þeim gert að aka fleiri hundruð kílómetra til Egilsstaða eða Reyðarfjarðar með tilheyrandi mengun, tímamissi, kostnaði og hugsanlegum hættum samfara því að aka langar leiðir í snjó og hálku að vetri til.

Það fyrirkomulag gagnrýnir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs, harðlega enda hafi þetta þegar kostað töluverð vandræði í bænum. Vandræði sem auðvelt var að koma í veg fyrir af hálfu Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) því hjúkrunarfræðingur sem starfar á Djúpavogi hefur ítrekað boðist til að sjá um hraðpróf og eða gefa sprautur þeim sem þess óska á staðnum. Því boði hefur verið hafnað.

„Ég veit um lítið fyrirtæki hér í bænum hvers þrír starfsmenn af fjórum fengu boð að koma í sprautu sama daginn og þeir þurftu allir til Egilsstaða. Bara aksturinn við bestu aðstæður fram og aftur tekur þrjár stundir og fyrirtækið þurfti bara að loka hjá sér þann daginn.“

Eiður bendir ennfremur á að það sé ekkert einfalt mál að sækja alla leið til Egilsstaða fyrir íbúa á svæðinu.

„Vegurinn um Öxi er opinn þennan daginn en það er ekkert víst að hann verði það á morgun eða hinn eða hinn. HSA hefði getað gert þetta allt saman af meiri víðsýni og með meiri þjónustulund gagnvart fólkinu hér á Djúpavogi með afskaplega auðveldum hætti en raunin er því miður önnur.“

Mynd: Langstysta leiðin frá frá Djúpavogi til Egilsstaða er yfir Öxi en snjór og hálka þar oft vandamál að vetrarlagi. Yfir hann fara margir þeir sem vilja fá örvunarsprautu og eða komast í hraðpróf á Egilsstöðum. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar