Þúsund fermetra viðbygging reis á fjórum dögum

Viðbygging við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum er risin og segir María Ósk Kristmundsdóttir formaður byggingarfélags Hattar vonast til að byggingin verði tekin í notkun næsta haust.

Húsið reis á aðeins fjórum dögum en einingarnar voru forsmíðaðar. Um er að ræða þúsund fermtra viðbyggingu sem verður tengd eldri íþróttasal með tengibyggingu. Allur frágangur er þó eftir en María vonast til þess að nýja viðbyggingin verði tekin í notkun næsta haust. „Það er grindin sem er komin, en það á eftir að klára allan frágang, það á eftir að setja þakpappa og hurðir en húsinu verður lokað núna fyrir veturinn. Þetta fer auðvitað eftir því hvernig okkur gengur en ég vonast til þess að við getum tekið í notkun eftir eitt ár.“

Byggingarfélag Hattar stendur fyrir framkvæmdinni fyrir Fljótsdalshérað. Viðbyggingin er ætluð til iðkunar fimleika og frjálsra íþrótta og segir María mikla þörf vera fyrir viðbótina og að hún verði bylting fyrir íþróttaiðkun á Héraði. „Eins og allir sem eiga börn á Egilsstöðum vita þá eru æfingar oft á skrítnum tímum. Fimleikarnir eru mjög stór hluti, samtals eru um 400 iðkendur í frjálsum og fimleikum. Þannig að fimleikarnir eru að taka marga bestu tímana í íþróttahúsinu eins og skipulagið er í dag. Þar af leiðandi þurfum við að stækka til að mæta þessum iðkendafjölda. En þetta er líka stórt öryggismál, eða heilbrigðismál vegna þess að iðkendur í fimleikum þurfa að taka fram áhöldin fyrir hverja æfingu, draga þau fram og setja þau upp. Sem er töluvert mikið verk og fylgir álag, þarna eru mikil þyngsli á ferðinni. Í nýja húsinu verða áhöldin innbyggð og þarf ekki að gera þetta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar