Þýðir ekki að horfa framhjá dómunum

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir ekki hægt að skella skollaeyrum við þeirri staðreynd að íslenska ríkið hafi tapað dómsmálum sem snúa að innflutningi ófrosinnar kjötvöru þrátt fyrir að hafa haldið uppi vörnum í áratug. Ríkið geti ekki vikið sér undan samningum sem það hafi undirgengist af fúsum og frjálsum vilja.

Þetta kom fram á opnum fundi Kristjáns Þór Júlíussonar, ráðherra, í Valaskjálf nýverið. Þar ræddi hann breytingar á lögum sem banna innflutning á ófrystu kjöti til landsins á þann hátt að heimilt verði að flytja ófrosið kjöt til landsins. Tilslökunin nær aðeins til ríkja innan Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Talsmenn bænda hafa lagst harðast gagnvart breytingunum þar sem þeir óttast að erfitt verði að keppa við evrópska framleiðslu sem njóti náttúrulegs forskots sem leiði til ódýrara verðs. Fleiri hafa einnig lýst yfir áhyggjum af sjúkdómum og fjölónæmum bakteríum sem borist geti með fersku kjöti.

Bæði EFTA-dómstólinn og Hæstiréttur hafa síðustu ár staðfest að með banninu hafi íslensk stjórnvöld gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningsins og séu skaðabótaskyld.

Kristján Þór sagði ríkið þegar hafa þurft að greiða skaðabætur fyrir þrjár sendingar af ófrosnu kjöti til landsins vegna málsins. Þá stæði nú yfir vinna við að svara áminningarbréfi sem ríkinu hafi borist. Ella eigi það yfir höfði sér mál fyrir brot á EES-samningnum þar sem „við eigum akkúrat engar varnir.“ Lagabreytingarnar væru hluti af þeim breytingum en ríkið hefur frest til 13. apríl til andsvars.

Verja tíma til að leita varna

Hann sagði málið þó stærra en lagaflækju þar sem það snérist um vernd lýðheilsu Íslendinga og búfjárstofna. Þess vegna tæki ríkið sér þann tíma til að byggja upp þær varnir sem hægt er. Samráð hefði verið haft við yfirdýralækni, sóttvarnalækni og þýsku áhættumatsstofnunina. „Við höfum varið töluverðum tíma í að sjá hvort við gætum byggt upp varnir á annan hátt en viðhalda ólöglegu kerfi.“

Í því skyni hefur verið lögð fram aðgerðaáætlun í tólf liðum, meðal annars um innkaup opinberra stofnana til að styðja við innlenda framleiðslu, hert viðurlög við brotum, auknar takmarkanir og upplýsingar til ferðamanna um hvað þeir hafi meðferðis inn í landið og samkomulag við heilbrigðisráðherra um baráttu gegn sýklaónæmum bakteríum.

20 ára ferli

Kristján taldi málið eiga sér talsverðan aðdraganda, allt aftur til ársins 1999 þegar Frakkar settu hafnbann á íslenskar sjávarafurðir. Þá hafi farið af stað vinna til að íslenskar undirgengjust evrópska matvælalöggjöf þannig að hægt væri að flytja út íslenskar landbúnaðar- og sjávarafurðir án tímafrekrar umsýslu.

Í því felist miklir hagsmunir þar sem 70-80% íslenskra sjávarafurða fari á Evrópumarkað. Hann sagðist hafa séð umræðu frá fyrstu stigum málsins þar sem talað var um að minni hagsmunum væri fórnað fyrir meiri, það er að hagsmunir landbúnaðar hefðu vikið fyrir sjávarútveginum.

Á fundinum var ráðherrann ítrekað spurður út í hvers konar refsiaðgerðir Íslendingar ættu yfir höfði sér ef ekki yrði farið eftir matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Kristján sagðist ekki geta svarað fyrir hverjar þær yrðu þar sem Íslendingar hefðu ekki áður verið í stöðu sem þessari. Líklegast væri að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins færi í atriði í matvælalöggjöfinni og viki íslenskum hagsmunum þar til hliðar.

Skrifuðu frjálsir undir samninga

Árið 2009 voru lagabreytingar út af matvælalöggjöfinni loks staðfestar af Alþingi og þá gefinn 18 mánaða frestur til innleiðingar. Fyrsta dómsmálið hófst um leið og sá frestur var útrunninn. „Síðan hefur íslenska ríkið verið stanslaust fyrir dómstólum.“

Kristján Þór notaði tækifærið á þriðjudag til að gagnrýna fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem lýst hafa andstöðu við frumvarp hans. Hann sagðist hafa séð minnisblöð frá bæði 2002 og 2005 sem bæru skýrt með sér að þáverandi ráðamenn hefðu vitað að þeir vitað hvað þeir væru að gera, að taka upp matvælalöggjöf ESB með undanþágu frá innflutningi lifandi búfjár.

Þá hefði landbúnaðarráðherra haft tækifæri til þess frá árinu 2007, eftir að Alþingi hafnaði lagabreytingum, fram til staðfestingarinnar 2009 til að fara í viðræður við ESB um undanþágur með sterkari samningsstöðu. Því tækifæri hefði verið glutrað niður. „Fyrrverandi ráðherra sem ber einna mesta ábyrgð á málinu kannast ekki við ábyrgð sína í dag. Það þykir mér lítilmannlegt,“ sagði Kristján Þór.

Hann hélt því fram að í grófum dráttum snérist málið um að Íslendingar stæðu við samninga sem þeir hefðu gert, líkt og þeir ætluðust til af hinum aðilanum og þeir hefðu gengið frjálsir til samninga. Þetta þyrfti að gera þótt Íslendingum líkaði ekki skuldbindingin og flókið væri að standa við hana.

Íslendingar skulu hlíta dómum

Hann sagði að í gegnum utanríkisráðuneytið hefði verið rætt við ESB „nokkrum sinnum á öllum stigum“, síðast í febrúar þar sem þess var freistað að fá undanþágu til að halda frystiskyldunni. Skilaboðin væru einföld, EFTA-dómstóllinn hefði kveðið upp sinn dóm og honum skyldu Íslendingar hlíta.

Á þeim fundi hefði sambandið þó boðist til að aðstoða Íslendinga til að setja upp viðbótartryggingar gagnvart kampýlóbakter og salmonellu. Kristjáni Þór hefði verið vísað á yfirmann heilsu- og matvælaöryggissambandsins. Hann hefði óskað eftir með honum en ekki enn fengið svör.

Varist og varist og tapað og tapað

Nokkrir bændur sem til máls tóku á fundinum skoruðu á Kristján Þór að standa í lappirnar gegn þrýstingi ESB. Kristján sagði slíkar fullyrðingar til marks um að menn vildu ekki horfast í augu við stöðuna í málinu.

„Við erum með tvo dóma á bakinu. Við þurfum að svara þeim með öðrum hætti en draga þann sem er að vinna í málinu sundur og saman með fullyrðingum sem standast ekki. Íslenska ríkið hefur varist og varist og varist og tapað og tapað og tapað. Lýðheilsurökum hefur verið haldið fram af fullum krafti fyrir dómstólum en einfaldlega ekki verið hlustað á þau.

Íslensk stjórnvöld hafa leitað leiða til að komast hjá að gera það sem nú þarf að gera. Ég fullyrði að enginn í íslenskum stjórnmálum vill veikja varnir okkar á þeim sviðum sem liggja undir. Ég hef engan áhuga á að flytja þetta mál en maður þarf stundum að gera meira en gott þykir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar