Tilmæli um að allar deildir versli í heimabyggð á Vopnafirði
Hreppsráð Vopnafjarðar hefur beint þeim tilmælum til allra deilda innan bæjarins að þær versli í heimabyggð og standi þannig vörð um verslun þar.Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðar segir að í sumar hafi stefnt í það að, Kauptúni, einu verslun bæjarsins yrði lokað og að séð yrði fram á búðarlausa byggð.
„Þessi tilmæli eru komin til þar sem við viljum standa vörð um verslun á Vopnafirði,“ segir Sara Elísabet.
Í nýlegri fundargerð hreppsráðs Vopnafjarðar kemur m.a. fram varðandi innkaup sveitarfélagsins að allar deildir nema hjúkrunarheimilið hafa verslað matvörur af Kauptúni hingað til á ágætis kjörum.
„Hreppsráð tók ákvörðun á þessum fundi að beina því til deildarstjóra að versla í heimabyggð og styrkja þannig einu verslun okkar hér enda fáum við góð kjör þar og ekki var teljanlegur munur á því að versla af öðrum birgjum,“ segir Sara Elísabet.
Í minnisblaði sem lagt var fram á fundinum segir m.a. að hjúkrunarheimilið var ekki rekið af sveitarfélaginu áður heldur af HSA og erfðust innkaupareglur þaðan. Er tilmælunum m.a. beint þangað.