Tilmæli um að allar deildir versli í heimabyggð á Vopnafirði

Hreppsráð Vopnafjarðar hefur beint þeim tilmælum til allra deilda innan bæjarins að þær versli í heimabyggð og standi þannig vörð um verslun þar.

Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðar segir að í sumar hafi stefnt í það að, Kauptúni, einu verslun bæjarsins yrði lokað og að séð yrði fram á búðarlausa byggð.

„Þessi tilmæli eru komin til þar sem við viljum standa vörð um verslun á Vopnafirði,“ segir Sara Elísabet.

Í nýlegri fundargerð hreppsráðs Vopnafjarðar kemur m.a. fram varðandi innkaup sveitarfélagsins að allar deildir nema hjúkrunarheimilið hafa verslað matvörur af Kauptúni hingað til á ágætis kjörum. 

„Hreppsráð tók ákvörðun á þessum fundi að beina því til deildarstjóra að versla í heimabyggð og styrkja þannig einu verslun okkar hér enda fáum við góð kjör þar og ekki var teljanlegur munur á því að versla af öðrum birgjum,“ segir Sara Elísabet.

Í minnisblaði sem lagt var fram á fundinum segir m.a. að hjúkrunarheimilið var ekki rekið af sveitarfélaginu áður heldur af HSA og erfðust innkaupareglur þaðan. Er tilmælunum m.a. beint þangað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar