Tilraunir til ræktunar iðnaðarhamps í Berufirði vekja athygli ráðherra

Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir athugandi að kanna hvort hægt sé að liðka regluverk til að gera ræktendum iðnaðarhamps auðveldara fyrir til að skapa verðmæti úr framleiðslu sinni. Ábúendur á bænum Gautavík í Berufirði hafa í sumar gert tilraunir með ræktun iðnaðarhamps.

Þetta kom fram í umræðum um möguleika iðnaðarhamps á Alþingi í síðustu viku. Málshefjandi var Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sem benti á að í gegnum tíðina hafi bæði plastefni og gallabuxur verið saumaðar úr iðnaðarhampi.

Iðnaðarhampur er af ætt kannabisplantna, en inniheldur ekki efnið THC sem veldur vímu. Því er leyfilegt að rækta iðnaðarhampinn hérlendis og nýta alla hluta plöntunnar nema blómin. Erlendis hafa þau þó verið notuð í lyf og fæðubótarefni.

Halldóra spurði iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hvort hún væri til í að skoða hvort hægt væri að liðka fyrir til að skapa hvata og liðka fyrir ræktun iðnaðarhamps hérlendis.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra, kvaðst ekki þekkja íslenska regluverkið sérstaklega en hún væri opin fyrir að skoða það og gera það jákvætt til að auðvelda einstaklingum sem vilja búa til verðmæti úr iðnaðarhampinum eða skapa frekari verðmæti eða störf.

Í svari sínu tiltók Þórdís sérstaklega tilraunir bænda á Gautavík sem í sumar stóðu fyrir tilraunaræktun á iðnaðarhampi, sem þeir hyggjast meðal annars nota sem hráefni í gjafavöru og leikföng sem þar er framleidd.

Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir í Gautavík gerðu í sumar tilraunir með ræktun þriggja tegunda af iðnaðarhampi á jörð sinni. Í samtali við Austurgluggann í september sagði Pálmi ræktunina hafa fengið vel.

„Ef þær ná vexti eins og nú í sumri sem þessu þá er þetta í góðu lagi. Tilraunin var góð því sumarið var skelfilegt.“

Pálmi í ræktuninni í byrjun september. Mynd: Aðsend



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.